Stökk út í Jöklu í Stuðlagili

Elín Signý er dugleg að ferðast um landið og finnst …
Elín Signý er dugleg að ferðast um landið og finnst gott að baða sig í vötnum og ám. Ljósmynd/Aðsend

Elín Signý W. Ragnarsdóttir, dansari hjá Íslenska dansflokknum, hoppaði út í Jöklu þegar hún heimsótti Stuðlagil í júlí. Elín Signý fer í kalt vatn á hverjum degi og nýtir hvert tækifæri sem henni gefst til að hoppa út í vötn eða ár.

Elín Signý fór austurleiðina að gilinu með vinum sínum. Gangan er rúmlega fimm kílómetrar hvor leið en Elín Signý var berfætt báðar leiðir og hljóp í þokkabót til baka. Hún er vön að vera á tánum og segir það gott fyrir iljarnar. 

„Það var svo heitt að ég fór úr skónum. Ég elska að ganga á tánum. Ég er vön að vera á tánum alls staðar. Þetta er alveg stórgrýtt en það var ekkert erfitt að ganga á tánum. Þegar ég var búin að hlaupa var ég smá aum.“

Hér má sjá vinkonu Elínar Signýjar ofan í Jöklu í …
Hér má sjá vinkonu Elínar Signýjar ofan í Jöklu í Stuðlagili. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju ákváðuð þið að fara út í?

„Vatnið var svo ótrúlega girnilegt. Það var svo tært og blátt. Ég er alltaf að hoppa ofan í köld vötn og fossa. Það er mjög stórt áhugamál hjá mér. Þegar ég sé kalt ferskt vatn þá yfirleitt hoppa ég út í. Mér finnst það ótrúlega gott. Allur líkaminn vaknar og eftir á líður manni vel.“

Elín Signý segir að það hafi verið ótrúleg upplifun að vera í vatninu og horfa á magnað stuðlabergið allt í kringum sig. Hún segir Stuðlagil alveg jafn fallegt og fólk vill meina og segir ótrúlegt að þetta sé náttúrulegt þar sem formið á stuðlaberginu er svo reglulegt, nánast eins og maður hafi byggt það og notað reglustiku.

Nokkrir vinir Elínar Signýjar hoppuðu með henni út í en aðrir fóru af bakkanum og syntu. 

„Vinir mínir voru mjög hræddir við að hoppa fyrst út af straumnum. Maður gat ekki hoppað hvar sem er. Við þurftum að finna stað þar sem var lítill straumur, þar sem við komumst upp aftur og þar sem var nógu djúpt. “

Stuðlagil er ægifagurt.
Stuðlagil er ægifagurt. Ljósmynd/Aðsend

Elín Signý viðurkennir að vatnið í ánni hafi verið ískalt og það hafi ekki verið hægt að vera lengi úti í. Hún bendir þó á að það fari eftir reynslu fólks hversu lengi það getur verið í jafn köldu vatni.

„Maður þarf að hlusta á líkamann og anda rólega. Ef maður er ekki vanur að fara í svona kalt vatn getur það verið pínu sjokk fyrst,“ segir Elín Signý og segir að hitastigið hafi verið allt í lagi fyrir sig vegna þess hversu mikið hún fer í kalt vatn. Elín Signý skellir sér til sunds í sjónum og eltir öldur uppi landshorna á milli til þess að fara á brimbretti. Hún fer líka í kalda pottinn í sundi auk þess sem hún nýtir hvert tækifæri til þess að hoppa ofan af brúm og klettum í ferskt vatn.

Elín Signý baðar sig í vötnum og ám auk þess …
Elín Signý baðar sig í vötnum og ám auk þess sem hún fer á brimbretti í köldum sjónum. Ljósmynd/Aðsend

Þrátt fyrir að Elín Signý geti ekki mælt nógu mikið með því að baða sig úti í náttúrunni segir hún það ekki vera fyrir hvern sem er að baða sig í Jöklu. Hún hvetur fólk til þess að fara varlega, passa sig á straumnum og skoða vel aðstæður áður en það tekur stökkið.

mbl.is