Sóley er búin að vera með veiðistöng í annarri hendi í allt sumar

Sóley er vörumerkjastjóri fyrir sterkt vín á Íslandi.
Sóley er vörumerkjastjóri fyrir sterkt vín á Íslandi.

Sóley Kristjánsdóttir plötusnúður, vörumerkjastjóri sterks áfengis og bóndi í Breiðholtinu er á því að ferðalög innanlands séu algjör draumur. Hún segir Ísland fallegt og fjölbreytt og það sé stöðugt hægt að uppgötva nýja paradís í öllum landshlutum. Hún er búin að þeytast um landið og vera með veiðistöng í annarri hendinni á ferðalögum og ætlar að æfa sig í að slaka á í vetur. Í faðmi fjölskyldunnar. 

Hverjir eru uppáhaldsstaðirnir þínir?

„Þegar er stór spurning. Mér finnst Snæfellsnesið mjög seiðandi og þar á ég margt eftir ókannað. Ég tengi líka mjög mikið við Þingvelli og svo eru Vestfirðir eitt best geymda leyndarmálið þar sem tindarnir eru hverjir ofan í öðrum! Hver staður hefur sinn sjarma og maður á svo góðar minningar frá mörgum stöðum. Þórsmörk, Vestmannaeyjar, skógurinn í Hallormsstað og hálendið. Reykjanesið er undurfallegt og þangað fer ég oft með útlendinga. Ég kalla það silfur hringinn en það er ótrúlegt hvað eru fáir þar á ferli miðað við stórbrotið landslag.“

Hvað ætti fólk að huga að í sumarfríinu sínu?

„Að vera klæddur eftir veðri, sleppa símanum um stund alla daga, borða góðan mat og umfram allt vera í góðum félagsskap. Hvort sem er með sjálfum sér með góða bók eða með fjölskyldu og vinum. Í fríi á maður að kúpla sig út og finna frið og sælu.“

Hvað hefur komið þér á óvart tengt sumrinu?

„Það hefur verið mjög gaman að ferðast um landið í sumar og maður fann sannarlega ekki fyrir að vantaði ferðamenn, þeir töluðu bara flestir íslensku. Veðrið kemur manni náttúrulega sífellt á óvart. Þegar manni fannst lopapeysuveður fyrir norðan - en svo keyrði maður í gegnum jarðgöng og í næsta firði var sól og blár himinn. Það er gaman að sjá Íslendinga koma saman. Það er alltaf svo mikil gleði og glaumur.“  

Gerðir þú eitthvað í sumar sem þú myndir ekki gera aftur?

„Já, ég var með allt of þétt skipaða dagskrá þannig að ég náði eiginlega ekkert að vera heima. Ég elska að vera heima og slaka á og taka til hendinni í garðinum. Ég er eiginlega búin að vera með veiðistöng í annarri hendi í allt sumar á milli þess sem ég hef þeyst um á hestbaki þannig að ég get eiginlega ekki kvartað.“  

Skiptir miklu máli að skemmta sér í sumarfríinu?

„Já. Maður þarf að passa að lifa lífinu en vera ekki einungis að vinna og horfa á sjónvarpið. Það skiptir miklu máli að skemmta sér en jafn mikilvægt er að slaka á og ég er að æfa mig í því síðara.“

Sóley segir mikilvægt að gera fleira en að vinna og …
Sóley segir mikilvægt að gera fleira en að vinna og að horfa á sjónvarpið í lífinu.

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Þetta ár er búið að vera meira en lítið stórfurðulegt í heiminum öllum. Það hófst með Ástralíu brennandi og í hverjum mánuði hefur eitthvað nýtt gerst sem skekur heiminn. Maður bindur vonir við að þetta ástand hverfi um áramótin en einhvern veginn grunar mig að þessi veira sé ekki á förum alveg strax. Maður þarf að hlúa vel að sínum nánustu og sérstaklega nú í vetur. Annars finnst mér veturinn yfirleitt huggulegur og ég ætla að gera mitt besta til að þessi vetur verði frábær fyrir fjölskylduna mína.“

Sóley er bóndi og býr með fjölskyldunni og nokkrum dýrum …
Sóley er bóndi og býr með fjölskyldunni og nokkrum dýrum steinsnar frá miðborginni. Hér er hún með hænuna Freyju.
mbl.is