„Höfum því miður þurft að vísa fólki frá“

Eitt af fallegustu hótelum landsins er Magma hótel sem er staðsett í Landbroti. Það er um 3 kílómetra frá Kirkjubæjarklaustri. Á hótelinu eru 25 falleg herbergi í mjög nútímalegum stíl. Útsýnið frá herbergjunum er magnað en þar er horft er yfir stórbrotið umhverfi hótelsins þar sem vatn, hraun, fjöll og jöklar leika stórt hlutverk. 

„Magma hótel tók á móti sínum fyrstu gestum sumarið 2017 og hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð síðan það opnaði,“ segja hótelstjórarnir Steinunn og Valli og játa að þau hafi þurft að vísa fólki frá því það hefur verið svo góð aðsókn. 

Á Magma hótelinu er veitingastaðurinn Bistro 1783 en þar er leitast við að skapa þægilega og afslappaða stemmningu. Á matseðlinum er boðið upp á rétti unna úr fersku gæðahráefni og áhersla er lögð á að sem mest komi frá nærumhverfi hótelsins. 

Steinunn og Valli eru hótelstjórar á Magma hótel.
Steinunn og Valli eru hótelstjórar á Magma hótel.

Hvenær var það byggt og hver hannaði?

„Hönnun Magma hótels er hugarverk stofnanda þess, Ásbergs Jónssonar. Hafist var handa við byggingu á hótelinu árið 2016 og tókum við á móti fyrstu viðskiptavinum okkar sumarið 2017. Í upphafi buðum við upp á 12 herbergi en um þessar mundir höfum við verið að stækka við okkur. Við höfum nú bætt við 13 herbergjum og því er framboðið orðið samtals 25 herbergi,“ segja hótelstjórarnir. 

Nú eru húsin bæði nútímaleg en samt svolítið gamaldags. Hver er hugsunin á bak við það?

„Innblásturinn að hótelinu kemur frá mögnuðu umhverfi þess. Leitast var við að byggingarnar myndu falla inn í umhverfið og var hönnun þeirra sótt í íslenska byggingararfleið burstabæjanna, með tyrfðu þaki og viðarklæðningu. Öll húsin eru með óhindrað útsýni og verönd. Innanhúss var áherslan sett á tímalausa hönnun með smá skandinavísku „hygge“, þar sem hlýlegri eik og mildum litum er blandað saman. Húsin sem geta rúmað allt frá einstaklingum upp í 5 manna fjölskyldur eru rúmgóð og með öllum helstu þægindum sem vönduð hótel bjóða upp á.“ 

Hver er saga þessa landsvæðis?

„Staðsetning Magma hótels er í Landbroti, 3 km frá Kirkjubæjarklaustri en Landbrot er sveit í Vestur-Skaftafellssýslu. Eins og nafnið gefur til kynna þá hefur landslagið ekki alltaf verið með sama móti á svæðinu, en samspil hrauns og vatns hefur myndað afar áhugavert landslag. Svæðið einkennist af fjölmörgum gervigígum sem eru kallaðir Landbrotshólar. Hólarnir eru úr gjalli og mynduðust þegar hraun rann frá Eldgjá, yfir votlendi og olli gufusprengingum. Þeir eru misjafnir að gerð og lögun og eru sumir hverjir holir að innan og hafa verið notaðir sem fjárbyrgi fyrir bændur í sveitinni.“

Hvað leggið þið upp úr að gestir ykkar upplifi?

„Markmið okkar er að hótelgestirnir eigi hjá okkur eftirminnilega dvöl. Fegurð og kyrrð svæðisins er einstök og okkur finnst mikilvægt að gestirnir nái að njóta þess til hins ýtrasta, og verði þannig endurnærðir eftir dvölina hjá okkur og tilbúnir að takast á við næstu daga fullir af orku,“ segja þau. 

Hvað þarf gott hótel að hafa til að vera framúrskarandi?

„Fólk myndar sér væntingar áður en það kemur á hótelið. Til þess að geta verið talið framúrskarandi hótel þá þarf að tryggja að gestirnir fái upplifun sem fer fram úr væntingum þeirra. Það er ekki auðvelt, en til þess að geta náð þeim árangri þarf hótelið að vera með vel þjálfað starfsfólk, skothelda ferla og í raun sífellt leitandi að tækifærum til að gera enn betur og tryggja þannig góða upplifun gesta sinna.“

Hvernig hefur íslenska ferðasumarið verið í ár?

„Við renndum nokkuð blint inn í þetta sumar eins og flestir, en undanfarin ár hefur verið fullbókað hjá okkur vel fyrir sumarið af erlendum ferðamönnum og höfum við því lítið markaðssett okkur á innlendum markaði. Það sem af er sumri gætum við ekki verið ánægðari með nýtinguna og höfum því miður þurft að vísa fólki frá sem hefur ekki haft nægilegan fyrirvara.“

Eru kúnnarnir í ár aðallega Íslendingar eða eru þetta að hluta til erlendir ferðamenn?

„Það sem af er sumri hafa flestir gestir okkar verið búsettir á Íslandi. Þó eru bókanir frá erlendum ferðamönnum að aukast sem og bókanir frá ferðaskrifstofum, sem er auðvitað mjög jákvætt. Við viljum gjarnan hafa góða blöndu af innlendum og erlendum ferðamönnum.“

Ef þið væruð að gista eina helgi á hótelinu, hvernig væri dagskráin hjá ykkur?

„Á leið á eða frá hótelinu er gott að gefa sér góðan tíma í akstur, enda margt að skoða á leiðinni til dæmis Skógarfoss, Dyrhólaey og Reynisfjara. Þegar á hótelið yrði komið myndi afslöppun taka við í sveitakyrrðinni. Mikilvægur hluti af dvölinni er að njóta þess að vera í kyrrð og rólegheitum. Því væri tilvalið að koma sér fyrir á pallinum með kíkinn og fylgjast með fjölbreyttu fuglalífi og hestunum sem eru oft við vatn hótelsins.

Kvöldmatur á Bistro 1783 væri klárlega á dagskránni, en við mælum eindregið með bleikjunni eða lambaskankanum.

Eftir morgunmat næsta dag væri svo haldið áfram að njóta náttúrunnar. Staðsetning Magma hótels gerir það að verkum að það er ótrúlega margt hægt að skoða. Þennan dag væri tilvalið að keyra í Skaftafell og ganga jafnvel að Svartafossi eða Skaftafellsjökli.

Ef tími leyfir þá myndi ég halda áfram og keyra að Jökulsárlóni og eyða smá tíma þar, og jafnvel skoða hina svokölluðu „Demantaströnd“ fyrir neðan brúna, en þar má oft sjá skemmtilega íshnullunga á ströndinni sem hafa borist frá jöklinum. Fyrir stutta ferð frá hótelinu þá er Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri áhugaverður staður til kíkja á, sem og Fjaðrargljúfur.“

Hvað er skemmtilegt að gera í nágrenninu?

„Fjöldi afþreyingarmöguleika er við Kirkjubæjarklaustur og í nærumhverfi hótelsins. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem það eru gönguferðir, hjólaferðir, veiði, sund eða jöklaferðir. Frá hótelinu má meðal annars heimsækja eftirfarandi staði: Fjaðrargljúfur, Kirkjugólf, Skaftárstofu, Systrafoss, Jökulsárlón, Skaftafell, Lakagíga og Eldhraun, sem dæmi.“  

mbl.is