„Miðbærinn í Reykjavík er líklega uppáhaldsstaðurinn minn“

Bergrós segir sumarið hafa verið gott en frekar óvanalegt.
Bergrós segir sumarið hafa verið gott en frekar óvanalegt.

Tónlistarkonan Bergrós Halla Gunn­ars­dótt­ir fæddist á Ísafirði en flutti í Kópavog þegar hún var fjögurra ára. Hún var ung að aldri þegar hún fékk áhuga á tónlist og byrjaði að taka upp tónlist í herberginu sínu einungis 15 ára. Hún er mikið fyrir ferðalög og segir Vestfjarðakjálkann heilla. Hún ákvað að nýta fríið í sumar til að flytja sem hún mun ekki gera aftur. Flutninga segir hún betri á veturna. 

Eru ferðalög innanlands góður valkostur?

„Algjörlega! Landið okkar er svo ótrúlega fallegt. Ég náði því miður ekki að ferðast eins mikið og ég vildi í sumar en ég skrapp þó aðeins til Akureyrar og Búðardals með kærastanum mínum og við náðum að heimsækja ættingja hans í leiðinni sem er alltaf yndislegt. Annars ólst ég upp við það að við fjölskyldan nánast bjuggum í húsbíl á sumrin þar sem við ferðuðumst ótrúlega mikið innanlands. Maður þarf ekki alltaf að fara til útlanda til þess að njóta frísins – Ísland hefur svo ótrúlega margt upp á að bjóða.“

Hverjir eru uppáhaldsstaðirnir þínir?

„Ég fæddist á Ísafirði og bjó þar fyrstu fjögur árin mín. Við fjölskyldan vorum í mörg ár dugleg við að fara þangað á sumrin svo að Ísafjörður á mjög stóran stað í mínu hjarta, sem og allur Vestfjarðakjálkinn. Annars er ég voðalega heimakær og miðbærinn í Reykjavík er líklega uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi. Ef ég væri ekki á Íslandi væri ég líklega á Bali en það hefur verið pínu draumur að flytja þangað tímabundið.“

Hverju ætti fólk að huga að í sumarfríinu sínu?

„Fyrir mér er mikilvægt að kúpla sig aðeins út. Ég er týpan sem er alltof dugleg við að taka vinnuna með sér heim og kann ekki alveg að slaka á. Þess vegna reyni ég að nýta sumarfríið í það að njóta þess að hafa lítið á dagskránni og hafa nægan tíma fyrir fjölskylduna og vinina.“ 

Hvað hefur komið þér á óvart tengt sumrinu?

„Þetta sumar er búið að vera allt öðruvísi en maður er vanur sökum ástandsins í heiminum. Það var þó orðið nokkuð ljóst frekar snemma í ár í hvað stefndi en maður bjóst kannski ekki alveg við því að þetta yrði svona langvarandi. Ekki að það komi mikið á óvart en það hefur verið rosalega gott að sjá samstöðu Íslendinga á þessum skrítnu tímum.“

Gerðir þú eitthvað í sumar sem þú myndir ekki gera aftur?

„Við kærastinn minn eyddum miklum tíma í að flytja og koma okkur fyrir í nýrri íbúð. Það fóru allt of margir sólardagar í að vinna í íbúðinni – ég hugsa að ég kjósi frekar næst að flytja að vetri ef því er að skipta.“

Skiptir miklu máli að skemmta sér í sumarfríinu?

„Já, auðvitað! Sumarfríið er fullkominn tími til að rækta vinskap sem á það kannski til að verða undir þegar maður er með þéttpakkaða dagskrá. Það skiptir þó alltaf máli að skemmta sér vel og njóta lífsins!“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Hann leggst heldur betur vel í mig. Það er nóg fram undan í tónlistinni. Ég er strax farin að vinna í næstu „EP“-plötu. Ég er þó ekki mikill aðdáandi skammdegisins – þegar dagurinn virðist vera einungis 10 mínútur að lengd. Vetrinum fylgir samt alltaf smá sjarmi – ég elska að hafa ástæðu til að fylla íbúðina mína af kertaljósum og seríum.“

mbl.is