Valdimar synti í Stuðlagili og ætlar að gera það aftur

Valdimar Páll Halldórsson og Sólveig Edda Ingvarsdóttir.
Valdimar Páll Halldórsson og Sólveig Edda Ingvarsdóttir.

Valdimar Páll Halldórsson pípulagningameistari tók sundsprett í Stuðlagili á dögunum þegar hann var á ferðalagi um Ísland. Hann segir að líf sitt hafi tekið mjög miklum og jákvæðum breytingum eftir að hann fór að stunda köld böð og sjósund fyrir rúmlega þremur árum. Í dag notar hann hvert tækifæri til að synda í náttúrunni. 

„Ég var í þrjá daga fyrir norðan og synti svolítið í kringum Húsavík. Svo fór ég í Herðubreiðarlindir og datt í hug að synda í Öskjuvatni og Víti. Það var dásamlegt að synda í Öskjuvatni. Það var mjög kalt en ofboðslega tært og fallegt vatnið. Ég get ekki sagt það sama um Víti, það er svo mikil ólykt af vatninu þarna og svo eru þarna örugglega gufur sem eru ekki allt of heilnæmar fyrir mann. Ég lyktaði eins og fúlegg eftir að hafa baðað mig í Víti,“ segir Valdimar. Eftir Víti lá leiðin í Stuðlagil. 

„Ég var búinn að sjá myndir hjá vinkonu minni sem hafði synt þarna nokkrum sinnum. Myndirnar heilluðu mig svo svakalega. Mig langaði svo að fara þarna að synda enda var þetta á lista yfir það sem mig langar að gera í lífinu. Ég dýfi mér yfirleitt ofan í kalt vatn hvert sem ég fer,“ segir hann.

Hann segir að það hafi verið mikil upplifun að synda í Stuðlagili. 

„Þarna er bara svo stórbrotið að synda þarna ofan í gilinu að ég varð bara að gera það. Um leið og ég kom þarna niður eftir og sá það, þá efldist ég allur. Það kom mér svolítið á óvart hvað hitastigið var hátt. Ég bjóst við að það væri kaldara. Það var örugglega níu eða tíu gráður þarna. Kærustunni minni leist ekki mjög vel á þetta því það er straumur þarna en mér fannst það alls ekki. Ég sé ekki eftir þessu, þetta var mikil upplifun og ég á pottþétt eftir að gera þetta aftur,“ segir hann. 

Valdimar segir að eitthvað hafi gerst í hausnum á honum þegar hann byrjaði að stunda sjósund. 

„Ég byrjaði að stunda sjósund fyrir þremur eða fjórum árum síðan. Vinur minn dró mig í sjósund og sagði mér að þetta væri gott fyrir sál og líkama. Þetta var í mars eða apríl og sjórinn var tæpar þrjár gráður. Ég fór út í með honum og fannst þetta vera hryllileg lífsreynsla og mig verkjaði í allan skrokkinn. Ég náði tveimur mínútum og var ákveðinn í því að gera þetta aldrei aftur. Svo þegar ég kom heim og var búinn að jafna mig þá gerðist eitthvað í hausnum á mér. Þetta verð ég að prófa aftur. Svo fór ég aftur þegar sjórinn var aðeins hlýrri og féll algerlega fyrir þessu. Ég veit ekkert hvað gerðist í hausnum á mér en ég elska þetta,“ segir Valdimar sem fór fyrsta árið nærri því daglega í sjóinn. 

Valdimar býr í Reykjavík og syndir mikið í Nauthólsvík en honum finnst afgreiðslutíminn þar helst til of stuttur. Hann segist hafa kynnst alls konar skemmtilegu fólki í gegnum sjósundið og oftar en ekki búi fólk yfir mögnuðum lífsreynslusögum. 

„Ég hef kynnst alls konar frábæru fólki sem stundar sjósund allt árið um kring. Sögur þessa fólks eru merkilegar og það er áhugavert að heyra hvernig sjósund hefur hjálpað þeim. Ég hef aðeins velt fyrir mér hvers vegna það er ávanabindandi að fara í ískalt vatn og vera að berjast við hausinn á sér. Svo er maður að sigra hausinn á sér í hvert skipti sem maður fer út í. Eftir smá stund er hausinn búinn að átta sig á því að þetta sé bara allt í lagi og þetta sé bara ekkert að fara að drepa mann. Það verður endurnýjun í kerfinu þegar maður gerir þetta. Margir hafa talað um þetta sem lausn við kvíða, þá sækir það í sjósundið og líður miklu betur,“ segir hann. 

Valdimar rekur pípulagningafyrirtæki og segir að það sé fínt að gera í þeim bransa eins og staðan er í dag. Hann hefur 20 ára reynslu í faginu en segist oft og tíðum hafa unnið allt of mikið og gert of lítið fyrir sjálfan sig. 

„Köldu böðin breyttu lífi mínu. Ég hef aldrei verið mikið í ræktinni og það má eiginlega segja að mig hafi vantað köldu böðin í líf mitt sem uppfyllingu. Ég var búinn að vinna og vinna og áttaði mig svo á því að það var ekki að skila neinu. Er ekki talað um að maður eigi að leika sér, vinna og sofa,“ segir hann.

Eftir að sjósundið kom inn í líf hans kviknaði áhugi á að synda meira og fór í kjölfarið að læra skriðsund.

„Mér fannst gaman að synda, þá langaði mig að fara lengra. Fór að læra skriðsund og svo fór ég að æfa með þríþrautarliði hjá Ægi og hjá Breiðabliksgörpum, sem eru svona gamlir sundmenn.“

Valdimar segir að það sé hollt fyrir hvern mann að doka við og átta sig á því að lífið snýst ekki bara um vinnuna. 

„Það sem ég er búinn að læra er að ef mér líður ekki vel þá líður fólkinu í kringum mig ekki vel. Til að geta gefið af sjálfum sér þarf maður að lifa í sátt við sjálfan sig. Stór hluti af því er að finna sér hluti sem maður hefur gaman af að gera. Iðkun á einhverju og þá kom sjósundið inn hjá mér,“ segir Valdimar.  

mbl.is