Mælir ekki með að skipta um vinnu rétt fyrir sumarfrí

Sunna Ben ásamt Krumma.
Sunna Ben ásamt Krumma. Ljósmynd/Sunna Ben

Sunna Ben Guðrúnardóttir ljósmyndari og myndlistarkona er mikill náttúruunnandi og umhverfissinni. Hún fór í dagsferðir í sumar þegar sólin var hátt á lofti með Andra Frey unnusta sínum og syni þeirra honum Krumma. Hún mælir með einföldum dagsferðum á borð við lautaferð í Hljómskólagarðinum svo dæmi séu tekin.  

Ertu bú­in að njóta sum­ars­ins?

„Já, en ekki á hefðbundin sumarfrís- og útilegumáta. Ég byrjaði í nýju hlutastarfi hjá Vegan búðinni og hef verið að koma mér inn í hlutina þar samhliða listsköpuninni í sumar. Svo ég hef ekki farið í frí. Sem betur fer er vinnan skemmtileg og samstarfsfólkið frábært.

Ég hef þó að vísu skroppið í dagsferðir með manninum mínum og syni hingað og þangað og meðan sólin var enn í lofti náðum við meira að segja að lauma inn alvöru lautaferð í Hljómskálagarðinum. Það er eitthvað það allra sumarlegasta sem ég veit!“

Eru ferðalög inn­an­lands góður val­kost­ur að þínu mati?

„Algjörlega. Við maðurinn minn höfum heilt yfir ferðast mikið meira innanlands heldur en erlendis og sökum þess hve óvön við erum að ferðast erum við ekkert rosalega góð í að plana þessi ferðalög. Við reynum að spila eftir eyranu en þannig verða oft skemmtilegustu fríin til. Eitt sumarið ætluðum við að keyra hringinn og tjalda á öllum fallegustu stöðunum, en það var hellidemba allan tímann svo við brunuðum beinustu leið á Akureyri og gistum þar á litlu gistihúsi og áttum heiðarlega túristaviku þar. Það var ótrúlega gaman, alveg þannig að mig langar helst að gera það árlega.“

Hverj­ir eru upp­á­halds staðirn­ir að fara á?

„Ég elska Vestfirðina og það er alltaf erfitt að fá mig aftur í bæinn ef ég kemst þangað. Eins líður mér alltaf eins og ég sé komin heim þegar ég kemst á Seyðisfjörð. Mín skoðun er sú að hvaða staður sem er getur verið skemmtilegur ef hugarfarið er rétt og forvitnin í fyrirrúmi, það er svo margt skrýtið og skemmtilegt að skoða og sjá út um allt. Til dæmis kemur það mér ævinlega á óvart hversu mörg lítil og sérstök söfn eru á víð og dreif um landið, það er alltaf veisla að komast á sérkennilegt áhugamannasafn.“

Krummi elskar náttúruna eins og sést á þessari fallegu ljósmynd …
Krummi elskar náttúruna eins og sést á þessari fallegu ljósmynd sem Sunna tók. Ljósmynd/Sunna Ben

Hvað mæl­irðu með að all­ir taki með sér í fríið?

„Það er mikil klisja en fríið verður gott ef fólk man eftir góða skapinu. Svo einfalt er það.  Ekkert skemmir frí eins og fýla og nöldur, ég vil ekki sjá slíkt. Frí og ferðalög eru svolítið þannig að þau reddast og oftast verður gaman þó það rigni eða útilegustóllinn gleymist heima eða hvaðeina. Fjallaloftið og grillmaturinn bæta upp fyrir það, svo ekki sé minnst á sundlaugarnar úti á landi. Sumar þeirra bjóða meira að segja upp á kaffi á bakkanum, sem er æðislegt.“ 

Hvað hef­ur komið þér á óvart tengt sumr­inu?

„Þetta sumar hefur auðvitað verið ótrúlega skrýtinn skóli þökk sé kórónuveirunnar, það er nú sennilega það helsta. Auðvitað var vonin sú að við yrðum bara að fagna því að faraldurinn væri yfirstaðinn í sumar en svo fór því miður ekki.“

Hvað mynd­ir þú aldrei gera aft­ur sem þú hef­ur gert í sum­ar?

„Ég á það svolítið til að skipta um vinnu korter í sumarfrí og eiga þess vegna ekkert sumarfrí inni. Þetta gerði ég enn og aftur í ár og hef ákveðið að reyna að sleppa þessu alfarið í framtíðinni. Sumarfrí er svo ótrúlega mikilvægt og frábært.“ 

Andri Freyr að skoða blómin við rætur Esjunnar með Krumma.
Andri Freyr að skoða blómin við rætur Esjunnar með Krumma. Ljósmynd/Sunna Ben

Skipt­ir miklu máli að ná upp brún­kunni í sum­ar­leyf­inu?

„Nei en það getur verið frábær fylgifiskur útiveru og stuðs.“ 

Hvernig leggst vet­ur­inn í þig?

„Betur en ég bjóst við. Rigningin undanfarið hefur sett mig í kósý, kerta og súpugírinn og það er alltaf svolítið skemmtilegt. Ég er líka vongóð að við náum þessari leiðinda plágu aftur niður fyrir veturinn og getum farið að skemmta okkur saman, það skiptir mig heilmiklu máli sem plötusnúður að það fari að gerast. Ég sakna þess að spila undir dansi og gleði.“

mbl.is