Tvíburar endurtaka siglingu 12 árum síðar

Tvíburarnir Lára Guðbjörg og Theodór á leiksvæðinu í Nærrænu þar …
Tvíburarnir Lára Guðbjörg og Theodór á leiksvæðinu í Nærrænu þar sem þau léku sér fyrir 12 árum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir 12 árum fóru tvíburarnir Theodór og Lára Guðbjörg sem nú eru 13 ára í ferðalag yfir Atlantshafið með Norrænu til Norðurlandanna. Þá voru þau bara eins árs snúðar. Draumur þeirra rættist í sumar þegar þau fengu að endurupplifa ævintýrið. 

Í gegnum árin, þegar minnst hefur verið á þessa miklu ævintýraferð sem samanstóð af siglingu með Norrænu og ferðalagi um Skandinavíu og Færeyjar með foreldrum og stóru systkinunum, hafa þau sýtt það að muna ekkert eftir ferðalaginu sökum aldurs. Að auki hafa þau séð hin gríðarstóru skemmtiferðaskip sem leggjast reglulega að höfn að Skarfabakka í Reykjavík og látið sig dreyma um siglingu í slíku skipi. Í sumar rættist þessi tvískipti draumur þeirra; að sigla með skemmtiferðaskipi, endurlifa ævintýrið og hafa aldur til að muna eftir því. Í þeirra huga er Norræna nefnilega ekkert annað en skemmtiferðaskip og foreldrunum kom ekki til hugar að leiðrétta það. Þegar fólk er búið að fara með Baldri yfir á Brjánslæk, í Hríseyjarferjuna og með Herjólfi til Eyja er Norræna töluvert flottari farkostur enda fjórir veitingastaðir um borð, bíósalur, sundlaug, líkamsrækt, fótboltavöllur, barir og alls kyns skemmtidagskrá fyrir farþega; s.s. bingó, pub-quiz, lifandi tónlist á kvöldin, fræðsla um áfangastaðina og fleira. Og þó haldið væri til Hirsthals í Danmörku og Þórshafnar í Færeyjum en ekki til framanda landa í suðrænum höfum að þá var skemmtunin engu minni.

Tvíburarnir á hlaðborði í Norrænu.
Tvíburarnir á hlaðborði í Norrænu. Ljósmynd/Aðsend

Heitur pottur upp á dekki

Theodór og Lára Guðbjörg voru harðákveðin í því að prófa allt sem hægt væri að gera um borð. Það voru vissulega svolítil vonbrigði að sundlaugin í „kjallara skipsins“ á neðsta dekki var lokuð vegna Covid-19. Þau reyndu að útskýra fyrir starfsfólki skipsins að það væri löngu búið að opna allar laugar á Íslandi en þó varð fljótt ljóst að útskýringar þeirra myndu ekki duga til; sundlaugin yrði ekki prófuð í þessari siglingu. Það yrði bara að bíða þar til næst. Stóra systir hafði nefnilega rifjað upp hvað það er bráðfyndið að vera í sundlaug um borð í skipi, sérstaklega í miklum sjógangi. Eitt og annað hefur þurft að láta undan vegna faraldursins og þetta var svo sem ekki stóra málið, sérstaklega ekki þegar þau uppgötvuðu að hægt væri að leigja heitan pott á þilfarinu og njóta útsýnis yfir víðáttur hafsins um leið. Sem var gert og ungviðinu leið á þeim tíma eins og þau væru í raun og sanni í Suðurhöfum þar sem valinn var dagur þegar sólin skein þó hitastigið úti væri svo sem ekki á pari við Karabíska hafið.

Tvíburarnir skoðuðu leiksvæði barna hvar þau eyddu dágóðum tíma fyrir 12 árum en áttu töluvert minna erindi þangað núna en rifjað var upp fyrir þeim aðstæður og hversu kát þau voru að kútveltast þarna tæplega eins árs stubbar. Eftir heita pottinn fyrsta daginn var farið í bíó; enda ekki á  hverjum degi sem hægt er að sitja í bíósal og sigla samtímis.

Eins og áður segir eru veitingastaðirnir um borð fjórir talsins og eru þeir ólíkir að gerð, skyndibiti og einfaldari matur á The Diner, hlaðborð á Norröna buffet og svo „a la carte“ veitingastaðurinn Simmer Dim. Svo er Naust café, ekki eiginlegur veitingastaður en bæði bar og kaffihús en líka staðurinn sem helstu viðburðir fara fram. Fjölskyldan hafði farið í hlaðborðið á ferðalaginu fyrir 12 árum og endurtók leikinn nú. Þau voru ekki svikin af hlaðborði sem minnti helst á jólahlaðborð með tilheyrandi for-, aðal- og eftirréttum í norrænum stíl en á heimleiðinni var líka pöntuð pítsa sem krökkunum fannst ekki síður spennandi.

Það var sérstök upplifun að spila fótbolta á sjó, sérstakelga …
Það var sérstök upplifun að spila fótbolta á sjó, sérstakelga í smávegis öldugangi. Ljósmynd/Aðsend

Best í bingó!

Krakkarnir prófuðu unglingaherbergið (Teen-room) með tölvuspilum, nutu þess að standa upp á dekki í roki, liggja í leti inní káetunni og horfa á sjónvarp með fríhafnarnammi (skoðunarferðir um fríhöfnina voru töluvert vinsælar líka), þau fengu áfengislausa kokteila í flottum glösum á happy hour en sú afþreying sem stóð upp úr kom mest á óvart var bingó. Vinalegi Færeyingurinn í móttöku skipsins sá um bingóspilið og kenndi reglurnar. Hann reyndist vera mikill húmoristi því hann spilaði stef úr ótrúlega fyndnum og hallærislegum lögum þegar einhver kallaði „BINGÓ!“ og fékk salinn til að hlæja. Það bingó sem var spilað var nýstárlegra en fjölskyldan hafði kynnst; keypt voru útprentuð pappírsspjöld og tölva kallaði upp númer á færeysku, dönsku, ensku og þýsku sem komu upp á tölvuskjá. Strikaðar voru út raðir, ein, svo tvær og því næst þrjár innan sama kassa. Theodór og Lára Guðbjörg voru svolítið stressuð að klikka á þessu og voru því mjög einbeitt. Theodór trúði vart sínum eigin augum þegar hann virtist komin með fyrsta bingóvinninginn í fullum sal um borð í skipinu og bar niðurstöðuna hikandi undir ferðafélagana. Jú, mikið rétt! Þarna voru allar tölurnar komnar á skjáinn í einni röð og fyrsti vinningur leiksins í augsýn svo hann kallaði „Bingó“ lágt og hikandi. „Haha – það er Bingó hjá Íslendingunum,“ kallaði stjórnandi leiksins og skellti Ja Ja Ding Dong undir nálina tvíburunum til mikillar kátínu. Næsti vinningur gekk út en svo gerðist það ótrúlega að þriðja bingóið, þrjár raðir innan sama kassa, gekk til Láru Guðbjargar og náðu systkinin þannig að vinna sér inn 650 danskar krónur í vinninga sem þau gátu nýtt um borð. Ótrúlegur bingó árangur sem verður í minnum hafður!

Það tekur vissulega lengri tíma að sigla en að fljúga. Í tilfelli Theodórs og Láru Guðbjargar var siglingin hluti af ævintýraferð sumarsins enda segir orðatiltæki sem oft er notað í kynningarskyni í ferðaþjónustu að það sé ferðalagið sjálft, ekki áfangastaðurinn, sem skiptir mestu máli og átti það svo sannarlega við um sumarfrí tvíburanna þetta árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert