Svali og fjölskylda ætla aftur til Tenerife þegar ástandið lagast

Jóhanna og Svali fluttu til Tenerife um áramótin 2017/2018.
Jóhanna og Svali fluttu til Tenerife um áramótin 2017/2018.

Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er kallaður, flutti til Tenerife fyrir um tveimur árum og stofnaði þar fyrirtæki. Vegna kórónuveirunnar kom fjölskyldan heim í vor. Upphaflega ætluðu þau bara að vera á Íslandi yfir hásumarið en nú er komið í ljós að það verður eitthvað lengra. 

„Við ætlum út aftur, en bara get ekki svarað hvenær vegna ástandsins í veröldinni. Þetta er svarið við spurningunni sem ég hef fengið aftur og aftur síðustu vikurnar. Við, eins og margir aðrir, komum til Íslands í vor og planið var að fara út strax í upphafi september. En það er einhver hiksti á því og ljóst að við þurfum að setja strákana okkar í skóla hér heima og taka svo stöðuna þegar líður á veturinn. Við erum samt alveg ákveðin í að fara aftur út og halda áfram með fyrirtækið okkar TenerifeFerðir. Eins og staðan er nú þegar þetta er skrifað getur í rauninni enginn sagt hvenær allt verður farið í gang þar ytra. Í hreinskilni sagt held ég að það muni taka langan tíma þar til þetta verður allt eins og það var. Staðan í dag er þannig að a.m.k. 30% allra veitingastaða á eyjunni verða ekki opnaðir aftur, margar verslanir farnar á hausinn og fjölmörg afþreyingarfyrirtæki standa mjög illa,“ segir Svali á facebooksíðu sinni. 

Svali segir að lífið á Tenerife verði ekki samt eftir veiruna. 

„Þetta er ekki alslæmt og það er margt jákvætt sem á eftir að koma út úr þessu á Tenerife svo að því sé til haga haldið. Það verður gríðarleg hreinsun og ljóst að þau fyrirtæki sem stóðu illa fyrir verða ekki til staðar þegar um hægist. Þá opnast vonandi tækifæri fyrir nýja aðila sem geta gert hlutina enn betur. Ferðaþjónustan mun ekki taka gesti sem sjálfsagðan hlut og margt er það sem mun breytast til hins betra. Lífið á Tenerife er skrítið núna miðað við það sem áður var. Minna um fólk og allt mjög rólegt, en það kunna heimamenn vel að meta, en þeir gera mikið af því að borða úti og njóta alls þess sem er í boði, líkt og við höfum gert á Íslandi í sumar. Það er bara ekki nóg og margir eru uggandi yfir komandi vetri sem alla jafna ætti að vera þétt bókaður því þá er jú háannatíminn á Tenerife og Gran Canary.“

Svali og Jóhanna eru nú að leita að íbúð til að búa í á Íslandi í vetur. 

„Við Jóhanna munum þurfa að finna okkur íbúð á klakanum í vetur. Það er ljóst að strákarnir verða í skóla hér heima í vetur og klára skólaárið á Íslandi, þó svo að ég verði með annan fótinn á Tenerife.

Í vetur mun Jóhanna vinna áfram í Unique hár og spa, hárgreiðslustofunni þar sem hún hefur lengst af unnið, en ég verð síðan á Bylgjunni alla föstudaga milli 13 og 16 með mínum gömlu félögum í Zúúber. Zúúber var morgunþáttur sem rúllaði í sex ár snemma á þessari öld. En það góða við þá vinnu er að ég get auðveldlega sent út frá Tenerife þegar ég svo loks kemst þangað.“

 mbl.is