Lokuðu fyrir bókanir mánuði fyrr en áður

Mælt er með því að geyma ferðavagna á borð við …
Mælt er með því að geyma ferðavagna á borð við hjólhýsi inni yfir vetrartímann. mbl.is/Colourbox

Sprenging varð í sölu ferðavagna í sumar og voru tjaldsvæði full af stórum hjólhýsum. Á veturna er ráðlagt að geyma ferðavagna inni og þurfti Ómar Níelsson hjá ferðavagnageymslunni S3 á Kvíarhóli í Ölfusi að loka fyrir bókanir eldri viðskiptavina mánuði fyrr en vanalega. Nýir viðskiptavinir með hjólhýsi komust því ekki að, sem er breyting frá því áður.

Ferðavagnageymslan S3 er að hefja sextánda veturinn í geymslu á ferðavögnum. Ómar segist hafa fundið strax í sumar að markaðurinn væri að breytast og eftirspurn að aukast. 

„Margir af okkar viðskiptavinum sem hafa verið hjá okkur í mörg ár með tjaldvagna eða fellihýsi voru að skipta yfir í hjólhýsi. Einnig þeir sem hafa verið undanfarin ár hjá okkur með hjólhýsi voru margir að stækka við sig,“ segir Ómar. 

Færri tæki en stærri

„Venjulega hefur verið hægt að bæta við 15 til 20 prósentum af nýjum viðskiptavinum í öllum flokkum hvert haust. Þetta haustið var ekki hægt að bæta nýjum viðskiptavinum við í hjólhýsum vegna þess að margir hafa stækkað við sig í þeim flokki. Í raun erum við að geyma aðeins færri tæki þótt við séum með sömu fermetra og áður,“ segir Ómar. Hann bætir við að fyrirtækið hafi aðeins getað bætt við 10 prósentum nýrra viðskiptavina í flokki tjaldvagna og fellihýsa.

Ómar segir ferðavagnaeigendur meðvitaða um skort á geymsluplássi og var fólk tímanlega í að bóka geymslu. 

„Við urðum að loka fyrir bókanir frá eldri viðskiptavinum 18. ágúst því allt var uppselt og gátum bara bætt við nokkrum nýjum viðskiptavinum með tjaldvagna og fellihýsi fyrir komandi vetur. Undanfarin ár höfum við verið að loka fyrir bókanir í kringum 20. september. Annað mjög athyglisvert er að stór hluti af því sem við geymum er nú þegar kominn á staðinn til okkar. Venjulega hefur fólk byrjað að koma með vagna í kringum mánaðamótin ágúst/september. Sumir hafa verið að draga að koma með tæki þar til fyrstu haustlægðir koma.“

Ómar segir ásókn í geymslupláss ekkert sérstaklega koma á óvart miðað við þær fréttir sem fluttar voru af sölu á nýjum og notuðum ferðavögnum í sumar. „Þótt við séum með tiltölulega stóra geymslu geymum við í heild mjög lítinn fjölda hjólhýsa miðað við það sem selt er ár hvert.“

Eldri hjólhýsaeigendur hafa margir hverjir stækkað við sig.
Eldri hjólhýsaeigendur hafa margir hverjir stækkað við sig. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Ferðavagnar viðkvæmir fyrir frosti og raka

Ómar segir ferðavagna almennt mjög viðkvæma fyrir raka auk þess sem hætta sé á frostskemmdum á vatnslögnum ef vagnarnir eru geymdir úti. Hann segir flestar geymslur fyrir ferðavagna vera kaldar geymslur en mestu máli skipti þó að það lofti vel og ekki sé raki í geymslunum þótt stundum geti orðið kalt. Hann bendir einnig á að margir vilji koma vögnum í hús vegna plássleysis heima fyrir. 

„Undanfarin ár höfum við mikið verið spurð hvort við getum tekið vagna í sumargeymslu úti því margir sem til dæmis búa í fjölbýlishúsum eru í vandræðum með að geyma vagna yfir sumarið. Einnig finnst fólki öruggara að vita af sínum vögnum inni í húsnæði sem er vaktað og fylgst vel með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert