Íslendingar duglegir að heimsækja Bjórböðin í sumar

Ragnheiður Ýr Guðjónsdóttir rekstrarstjóri Bjórbaðanna og Agnes Anna Sigurðardóttir tengdamóðir …
Ragnheiður Ýr Guðjónsdóttir rekstrarstjóri Bjórbaðanna og Agnes Anna Sigurðardóttir tengdamóðir hennar sem er framkvæmdastjóri bruggverksmiðjunnar Kalda.

Ein skemmtilegasta breytingin sem orðið hefur í íslenskri ferðaþjónustu á undanförnum árum, fyrir utan gríðarlega fjölgun veitinga- og gististaða um allt land, er sú sprenging sem hefur verið í heilsulindum og baðstöðum af ýmsu tagi. Nú er svo komið að allir landshlutar geta státað af heilsulind (spa) sem er kærkomin viðbót við frábærar sundlaugar landsins og náttúrulaugar. Stundum langar fólk einfaldlega í svolítinn lúxus, eitthvað meira og öðruvísi en 25 m sundlaug og heita potta. Það eru ekki bara erlendu ferðamennirnir sem hafa tekið þessari nýjung kostum og kynjum. Eins og sést hefur á samfélagsmiðlum í sumar hafa Íslendingar verið afar iðnir að heimsækja nýjar heilsulindir og baðstaði um allt land í sumar og notið þess í botn.

Óhætt er að segja að ein óhefðbundnasta heilsulindin sé á Árskógssandi við Eyjafjörð, litlu bæjarfélagi með um 100 íbúa en þar eru einu bjórböð landsins – þar sem fólk baðar sig beinlínis í bjór. Hjá fólki sem ekki hefur prófað slíkt áður vaknar gjarna spurningin: já en af hverju baða sig í bjór? Er ekki nóg að bara drekka hann? Staðreyndin er sú að fólk hefur lengi baðað sig í bjór, einkum í löndum með langa bjórhefð eins og Þýskalandi, Tékklandi og víðar í Evrópu og hefur siðurinn breiðst út til annarra landa og náð vinsældum. Eins og hér á Íslandi. En hvað kom til að fyrstu bjórböð landsins voru sett á laggirnar og það á Árskógssandi?

Án nálægrar bruggverksmiðju væri ekki hægt að bjóða upp á …
Án nálægrar bruggverksmiðju væri ekki hægt að bjóða upp á bjórböð.

Blaðakona ferðavefjar mbl.is settist niður með Ragnheiði Ýr Guðjónsdóttur rekstrarstjóra Bjórbaðanna og tengdadóttur Agnesar Önnu Sigurðardóttur og Ólafs Þrastar Ólafssonar sem hleyptu bruggverksmiðjunni Kalda af stokkunum árið 2006. Það segir sig sjálft að án bruggverksmiðju gengur erfiðlega að bjóða upp á bjórböð. Sagan um úrræðagóðu hjónin á Árskógssandi sem veita allt að 30 manns vinnu er orðin allþekkt hérlendis. Ólafur starfaði alla tíð sem sjómaður en meiddist á fæti og fékk ekki vinnu við hæfi þrátt fyrir mikla leit. Honum féll hugmyndin að flytja úr sinni heimabyggð illa en var svo heppinn að kona hans sat eitt kvöld við sjónvarpið og horfði á viðtal í fréttatíma við eiganda staðbundinnar örölgerðar (micro bryggeri) í Danmörku sem fullyrti að bjór sem framleiddur var í héraði í litlu magni væri að ná miklum vinsældum á kostnað bjórs úr stórverksmiðjum.

„Heyrðu Óli, af hverju gerum við ekki svona hérna,“ spurði Agnes sinn mann. Hún kannaði málið, þau settu sig í samband við Danann úr viðtalinu og smám saman fór boltinn að rúlla. Allan tímann meðan á undirbúningnum stóð hljómuðu orð ömmu Agnesar, Soffíu Sigurðardóttur, að vatnið á Árskógssandi væri besta vatn landsins og þau því alltaf sannfærð um að lykilhráefnið fyrir bjórframleiðslu væri fyrsta flokks. Fyrstu bjórarnir komu á markað árið 2006 undir vöruheitinu Kaldi og hefur verksmiðjan oft verið stækkuð og bjórtegundirnar orðnar 12 talsins. Þannig hefur þessi hugmynd sem kviknaði yfir sjónvarpinu verið samfelld velgengnisaga þótt auðvitað hafi þetta verið gríðarleg vinna, sérstaklega í byrjun.

Gestir geta notið góðra veiga og dásamlegrar náttúru eftir böðin.
Gestir geta notið góðra veiga og dásamlegrar náttúru eftir böðin.

Það var svo aftur Agnes sem fékk hugmyndina að bjórböðum á Árskógsströnd en hjónin höfðu farið með foreldrum Agnesar og þáverandi bruggmeistara í heimsókn til Tékklands árið 2008 þegar bjórframleiðslan var tiltölulega ný. Þar kynntust þau bjórböðum og menningunni í kringum þau og heilluðust. Fyrstu árin eftir opnun bruggverksmiðjunnar var engin leið að huga að slíkum segli fyrir ferðamenn en Agnesi varð ljóst að slíkur staður gæti orðið einstakur á Íslandi og mikilvæg búbót í atvinnumöguleikum í Dalvíkurbyggð. Eftir að hin hefðbundna bjórframleiðsla var komin í jafnvægi var farið að huga að opnun baðanna sem hafði blundað þessi ár í Agnesi og var fyrsta skóflustungan að byggingu bjórbaðanna tekin árið 2016 og þau opnuð árið 2017.

Gestir baða sig í sérhönnuðum bjórbaðskerjum í svokölluðum ungum bjór sem er lifandi bjór með geri, humlum, vatni, bjórolíu og bjórsalti. Bjórinn er um 38 gráða heitur og freyðir eins konar bjórsápu sem virkar eins og freyðibað. Þessi ungi bjór er ríkur af B vítamínum, gerið er ríkt af próteini, kalíum, járni, zink og magnesíumi en humlarnir hafa einnig góð áhrif á líkamann þar sem þeir innihalda andoxunarefni og alfasýrur. Þannig hafa samverkandi áhrif virku efnanna í bjórnum bólgueyðandi áhrif, þau geta minnkað roða í húð og haft mýkjandi áhrif á húð og hár. Þess vegna er mælst til þess að fólk fari ekki í sturtu fyrr en fjórum klukkustunum eftir baðið til að hámarka áhrifin. 

Falleg sýn yfir Eyjafjörðinn blasir við gestum sem nýta sér …
Falleg sýn yfir Eyjafjörðinn blasir við gestum sem nýta sér útipottana fyrir böðin.

Ragnheiður segir að þótt erlendir ferðamenn hafi verið stór hluti gesta frá opnun hafi Íslendingar alltaf verið duglegir að prófa böðin. Hún segist vera þakklát fyrir hversu duglegir þeir voru að koma á nýliðnu sumri í fjarveru útlendinganna vegna Covid-19. „Íslendingar hafa komið mest á sumrin, rétt eins og erlendu ferðamennirnir, en komi þó töluvert utan háannar, en starfsmannahópar, vinahópar og „skíðatúristar“ að sunnan komi oft í böðin til að njóta þessarar sérstöku upplifunar,“ segir Ragnheiður að lokum.  

Sá lifandi ungi bjór sem gestir baða sig í í …
Sá lifandi ungi bjór sem gestir baða sig í í sérhönnuðum bjórbaðskerjum er um 38 gráða heitur. Hann inniheldur mikið af virkum efnum sem eru talin hafa góð áhrif á líkamann.
mbl.is