Svona skal ganga frá ferðavögnum fyrir veturinn

Það þarf að ganga vel frá ferðavögnum fyrir veturinn.
Það þarf að ganga vel frá ferðavögnum fyrir veturinn. mbl.is/Árni Sæberg

Ef ferðavagna- og húsbílaeigendur eru ekki nú þegar búnir að gera allt klárt fyrir veturinn er um að gera að fara að huga að því. Það þarf ekki bara að koma ferðavögnum og húsbílum fyrir í geymslu heldur þarf einnig að ganga vel frá. Sniðugt er að styðjast við Gátlista hjá ferðavagna­geymsl­unni S3 á Kví­ar­hóli í Ölfusi. 

Gott er að hafa eftirfarandi í huga áður en gengið er frá ferðavagni eða húsbíl í vetrargeymslu:

  • Vatnskranar skulu hafðir hálfopnir, sturtuhaus hafður í efstu stöðu og öll niðurföll opin. Gott að gera þennan hluta í lok síðustu útilegu til að vera viss um að ekkert vatn sé eftir í vatnskerfi vagnsins eða bílsins. Athugið að sumar gerðir Truma-hitunarkerfa má ekki tæma, vinsamlegast kannið hjá þjónustuaðila Truma eða lesið leiðbeiningahandbók.

  • Salernistankur tæmdur og hreinsaður, einnig gott að gera í lok síðustu ferðar sumarsins.

  • Setjið gúmmítappa í affall vasksins.

  • Athugið að allar lokhlífar utan á vagni eða bílnum séu vel lokaðar.

  • Takið allar matvörur, leifar úr skápum og skúffum, jafnvel þó að í loftþéttum umbúðum séu.

  • Takið allt lín, þar með talið handklæði og viskastykki, úr vagni eða bíl.

  • Þrífið allar skúffur með sápuvatni.

  • Þrífið ísskáp, kæliskáp,  kælibox og skiljið dyr eftir opnar (festið hurð ef þarf).

  • Lokið öllum gluggum, viftuopum, þakgluggum og öðrum öndunaropum kirfilega.

  • Aftengið gaskúta og takið úr vagninum, lokið fyrir gasventla.

  • Aftengið og fjarlægið rafgeymi/geyma. Mælt er með að fólk tengi þá við hleðslutæki tvisvar til þrisvar sinnum yfir veturinn til að viðhalda rafgeyminum og lengja líftíma hans eða þeirra.

  • Þrífið vagn eða bíl að utan.

  • Bónið vagninn eða bílinn. Athugið ef það er plexígler í gluggum vagnsins eða bílsins þá skal ekki bóna gluggana eða nota rúðuúða sem inniheldur salmíak þar sem það getur rispað gluggann.

  • Ekki skilja vagninn eftir í handbremsu í langan tíma þar sem þær geta fest, setjið farg fyrir hjól framan og aftan.

  • Ef vagninn eða bíllinn er geymdur úti án yfirbreiðslu skal hafa flugnanet niðri og loka gluggatjöldum til að koma í veg fyrir að áklæði upplitist.

  • Ef vagninn eða bíllinn er geymdur úti skal koma fyrir rakaboxi/boxum með rakagleypiefni til að draga úr rakamyndun.

  • Ekki byrgja fyrir öndunarop á eldavél né ofni.

  • Smyrjið lamir, læsingar og beisliskúplingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert