„Það er svo ótrúlega fyndið að vera allsber í náttúrunni“

Þorgerður María Þorbjörnsdóttir hefur unnið sem landvörður í Kverkfjöllum síðastliðin …
Þorgerður María Þorbjörnsdóttir hefur unnið sem landvörður í Kverkfjöllum síðastliðin 2 sumur. Ljósmynd/Aðsend

Þorgerður María Þorbjörnsdóttir hefur unnið sem landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði síðastliðin tvö sumur. Þorgerður er með Bs-gráðu í jarðfræði og er einnig formaður Ungra umhverfissinna. Hún segir að sumarið í Kverkfjöllum, hvar hún er staðsett, hafi verið gott og passlega mikið af fólki komið. 

„Ég byrjaði að vinna á hálendinu sumarið 2018 og var þá skálavörður í Landmannalaugum og Þórsmörk og fékk mikinn áhuga á landvarðarstarfinu í kjölfarið. Ég tók landvarðarkúrs í HÍ á haustönn sama ár og öðlaðist því landvarðarréttindi við útskrift með Bs í jarðfræði um vorið. Um sumarið á eftir starfaði ég fyrst sem landvörður og var þá á austur hálendi Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem ég starfa einnig nú,“ segir Þorgerður í viðtali við mbl.is.

Þorgerður er ekki sú fyrsta í fjölskyldunni sem starfar sem landvörður en móðursystir hennar var líka landvörður á þessu svæði þegar hún var yngri og amma hennar og afi á árunum 1973-74. 

„Það sem er skemmtilegast við þetta starf er að fá tækifæri til að kynnast náttúrunni á alveg nýjum forsendum en þegar maður ferðast um svæði stoppar maður yfirleitt bara í nokkra daga. Þegar maður starfar sem landvörður eða skálavörður er maður á sama svæðinu í margar vikur og sér hinar ýmsu hliðar á náttúrunni sem maður myndi annars missa af. Það fylgir þessu mikil útivist, útsjónarsemi og fræðsla en þetta er allt eitthvað sem ég vil tileinka mér vel. Maður verður að geta svarað alls konar spurningum ferðamanna og aðstoða þá ef þeir eru í vanda. Þetta hefur eflt sjálfstraustið mitt í alls konar bílabrasi og öðru slíku en einnig dýpkað þann skilning á jarðfræði sem ég öðlaðist í náminu og ég hef líka lært fullt af líffræði og sögu,“ segir Þorgerður.

Náttúran er kyngimögnuð.
Náttúran er kyngimögnuð. Ljósmynd/Aðsend

Passlega mikið af fólki í Kverfjöllum

Þorgerður segir að veiran hafi sett ákveðið strik í reikninginn í sumar að hún hafi minnkað samskipti við fólk þegar það gistir í skálanum. Hún segir oft hafi verið mjög gaman að kynnast ferðamönnum betur og þá hafi þeir náð að spyrja fleiri spurninga um svæðið. 

„Það er búið að vera alveg passlega mikið af fólki í Kverkfjöllum í sumar en ég hef yfirleitt góða yfirsýn yfir hverjir eru hér á hverjum tímapunkti. Hér mætti endilega koma meira af íslendingum samt en þorrinn af þeim sem hingað koma eru erlendir ferðamenn. Íslendingar kannski veigra sér fyrir þessum langa botnlanga sem aksturinn í Kverkfjöll er. Náttúruöflin hafa líka verið mjög róleg en veðrið hefur almennt verið gott og lítið vatn í ánum oftast,“ segir Þorgerður. 

Landvarðarstarfið er fjölbreytt en Þorgerður segir að besti hlutinn sé að fá að fræða fólk um jarðafræði. „Mér finnst svo gaman að tala um jarðfræði og það er svo gaman að fá hópa af fólki til mín sem langar til að hlusta, spyrja og fræðast. Það er dagleg fræðsluganga niðri við Kverkjökul klukkan 10 á fræðslutímabilinu sem ég hef farið með og svo eru fullt af fræðslugöngum sem er farið með daglega um allan þjóðgarðinn. Mæli hiklaust með að fólk nýti sér þetta næsta sumar,“ segir Þorgerður.

Þorgerður finnst besti hluti starfsins vera að fræða fólk um …
Þorgerður finnst besti hluti starfsins vera að fræða fólk um jarðfræði. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Hrifnust af útilegum

Þó stórum hluta sumarsins hafi hún varið í Kverkfjöllum þá hefur hún líka verið á faraldsfæti um landið og heimsótti Húsafell, Vestmannaeyjum og Breiðdalsvík. „Ég varði mestum frítíma mínum í Skaftafelli. Þar sótti ég námskeið hjá Erlu og Írisi sem reka Öræfaskólann og fékk að prufa allskonar eins og jöklagöngu, ísklifur og útilegu í Morsárdal með allt á bakinu. Við þetta blandaðist svo ótrúleg þekking þeirra á svæðinu og í rauninni var þetta blanda af náttúruskóla og útivistar upplifun. Það er þannig að þegar maður byrjar að fræðast um náttúruna þá langar manni alltaf að læra meira og meira og upplifanir manns af henni verða veigameiri þegar maður skilur betur hversu mikið náttúruundur Ísland er með sína jökla og einstakt lífríki,“ segir Þorgerður. 

Hrifnust er Þorgerður þó af útilegum og nýtur þess að elta veðrið. „Mér finnst best að vera úti mestallan daginn þó svo að ég gangi kannski ekkert mjög langt. Gott nesti er gulls ígildi og svo er best ef mér tekst að baða mig einhversstaðar, hvort sem það er í köldu eða heitu vatni. Það er svo ótrúlega fyndið að vera allsber í náttúrunni. Mæli hiklaust með að allir prufi það að minnsta kosti einu sinni ef blygðunarkennd leyfir,“ segir Þorgerður. 

„Nú þegar sumarið er að líða undir lok stendur klárlega upp úr þegar vinir mínir úr Björgunarsveit Hafnarfjarðar komu að heimsækja mig í vinnuna og við löbbuðum saman í Hveradal sem er stórbrotið háhitasvæði í um 1800 m hæð vestur í Kverkfjöllum. Ég hafði ekki farið þangað áður vegna þess að það þarf vant jöklafólk og búnað til að ganga upp Löngufönn en hún er full af vatnsrásum undir snjónum og í henni eru líka sprungur sem eru huldar snjó. Við vorum því í línu og ég vil endilega nýta tækifærið til að ítreka fyrir fólki að ganga þetta í línu. Uppi eru tvö lón sem hitinn bræðir í jökulinn og fullt af búbblandi hverum. Frábært sjónarspil hinnar eilífu baráttu elds og ísa. Svo skemmdi útsýnið yfir allt norður og austur hálendið ekki fyrir.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert