Fór fimm sinnum í Þórsmörk í sumar

Metta ferðaðist mikið um Ísland í sumar.
Metta ferðaðist mikið um Ísland í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Sigurbjörg Metta Sigurjónsdóttir tók sumarið með trompi í ár og ferðaðist mikið innanlands. Hennar helsta áhugamál er útivist og að ferðast um náttúruna þó að hitt áhugamálið hennar, handavinna, fái oft að fljóta með. 

Metta fór í margar útilegur og fór meðal annars fimm sinnum í Þórsmörk sem hún segir vera alveg einstaka. Hún mælir með því að allir heimsæki Þórsmörk, Landmannalaugar og Kerlingafjöll.

Hvað ertu búin að gera í sumar?

„Listinn er skemmtilega langur! Sumarið mitt byrjaði með óvæntu vikufríi í byrjun júní sem ég nýtti til að ferðast norður í heimsókn til fjölskyldu og vina. Það var æðislega gott veður þannig að ég fór ein í sólarhring í Ásbyrgi með tjald, hljóðbók, prímus og með hjólið á toppnum á bílnum. Ég keyrði svo hálfan hring í kringum landið til að fara í Bása í Goðalandi með vinunum yfir Jónsmessuhelgina sem er orðin árleg hefð. Við nýttum laugardaginn í að labba Tindfjallahringinn með bjórpásu í Húsadal áður en við röltum til baka í Bása í grill, varðeld og heitt kakó (og rauðvín). 

Næsta ævintýri var tæplega vikulöng ferð í Landmannalaugar á hálendisvakt björgunarsveitanna. Ég er félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og hef verið spennt fyrir hálendisvaktinni frá því að ég byrjaði nýliðaþjálfunina. Hálendisvaktin er virkilega mikilvægur hluti af öryggisteymi á hálendi landsins og styttir viðbragðstímann til muna ef eitthvað kemur upp á. Sumarið í ár var öðruvísi en þau síðustu þar sem færri ferðamenn voru á landinu en það voru hins vegar fleiri Íslendingar sem var skemmtilegt. Þrátt fyrir að það voru færri ferðamenn á ferð og flugi komu upp talsvert mörg útköll og verkefni víða um Fjallabak en við gátum einnig notið þess að ferðast um svæðið sem er eitt það fallegasta á Íslandi. Það sem stóð helst upp úr á hálendisvaktinni var að keyra um Syðra Fjallabak og spjalla við skálaverðina. Við fengum að smakka frægu Hvanngilsklattana sem skálaverðir í Hvanngili buðu okkur upp á þegar við kíktum til þeirra annan daginn í röð. Ég yfirgaf svo Landmannalaugar á föstudegi til að fagna Verslunarmannahelginni í úrhelli í Þórsmörk sem var virkilega skemmtilegt. Þórsmörk er í ótrúlega miklu uppáhaldi hjá mér og ef mig minnir rétt þá fór ég fimm sinnum í sumar (og hefði viljað fara oftar). Það er svo fátt sem jafnast á við náttúrufegurðina allt um kring. Svo finnst mér líka mjög gott að nýta tækifærið og kúpla mig út úr tækni á meðan ég er í Þórsmörk, þar er nefnilega ansi slæmt net- og símasamband. Foreldrar mínir undruðu sig á því í sumar hvað ég nenni að fara oft í Þórsmörk og ég er búin að hvetja þau til að gera sér ferð þangað í meira en ár. Það hlýtur að takast hjá mér fyrir rest og ég er viss um að þau muni fá sama blik í augun og ég þegar talað er um Mörkina.

Ljósmynd/Aðsend

Í lok ágúst fór ég vestur á Snæfellsnes í helgarferð til foreldra minna sem búa í Ólafsvík, heimbænum mínum. Mér finnst ég vera ótrúlega lánsöm að geta skroppið heim til foreldra minna og eiga dekurhelgi með þeim og ég reyni að gera það sem oftast. Þegar ég var yngri fórum við reglulega á laugardags- eða sunnudagsrúnt um svæðið og þessa helgina keyrðum við Jökulháls upp að rótum Snæfellsjökuls og svo áleiðis í kringum jökul á leiðinni heim. Mamma, pabbi og systir mín gengu frá Arnarstapa yfir á Hellnar sem er æðislega falleg og auðveld gönguleið sem eru tæpir 4 kílómetrar önnur leið. Ég var búin að vera ansi slöpp útaf vítamínskorti þannig að ég tók á mig að ferja bílinn og sat svo í grasinu að prjóna í sól og blíðu með útsýni yfir fjöruna á Hellnum á meðan ég beið eftir þeim. Við enduðum svo daginn í sushi veislu á einum besta veitingastað landsins að mínu mati sem er Viðvík á Hellissandi. Mér finnst virkilega skemmtilegt að prófa nýja veitingastaði og ég er mjög glöð og stolt að geta bent fólki á Viðvík þegar það er að ferðast um Snæfellsnesið. Það gerir líka svo mikið fyrir heimafólk að geta fagnað tilefnum, stórum sem og smáum, með hágæða mat án þess að þurfa að fara í annað bæjarfélag.

Ljósmynd/Aðsend

Ég lauk svo formlega sumrinu og tók á móti haustinu með ferð í Hvanngil með björgunarsveitinni. Nokkrir harðduglegir félagar fóru í rafmagns fjallahjólaferð og ég fékk að fljóta með sem aðstoðar-trússari. Á laugardeginum keyrðum við trússararnir að Króki og áleiðis í Hungurfit þar sem við græjuðum grillveislu og hleðslustöð fyrir hjólagarpana. Veðrið var með besta móti og skálavörðurinn í Hvanngili sagði að hitamet sumarsins hafi verið slegið þessa helgi!

Ég er samt ekki búin að skila tjaldinu og öllu tilheyrandi inn í geymslu heldur er allavega ein haustferð á dagskránni og vonandi fleiri. Það er nefnilega ekkert mál að gista í tjaldi þótt úti sé kalt ef maður er með réttu græjurnar.“

View this post on Instagram

Fyrsta en alls ekki síðasta útilegan í Mini Þórsmörk 🏕✨ — #fjallakroppur

A post shared by Metta (@mettanetta) on Jun 14, 2020 at 8:28am PDT

Hvernig ferðalög eru uppáhalds ferðalögin þín?

„Þetta er mjög erfið spurning því mér finnst ótrúlega skemmtilegt að gista á hótelum og borða góðan mat á veitingastöðum um land allt en einnig að ferðast um hálendið og gista í skálum eða tjaldi. Í sumar hefur það síðarnefnda verið í meira uppáhaldi og ég sé fram á að það verði það áfram. Það getur nefnilega verið alveg dásamlegt að gista í tjaldi ef tjaldið, dýnan og sérstaklega svefnpokinn eru gæðamikil.“

Hvað er búið að standa upp úr í sumar?

„Það sem hefur staðið upp úr hjá mér í sumar eru staðirnir sem ég var að heimsækja í fyrsta skipti eða í fyrsta skipti í langan tíma. Ég fór í Þakgil með vinkonum mínum í byrjun sumars sem var alveg dásamlegt og fegurðin þar kom mér virkilega á óvart. Við tókum göngu í sól, steikjandi hita og logni og skemmtum okkur konunglega en ég verð þó að setja Fjallabak efst á listann. Ferðalögin þar standa klárlega mest upp úr hjá mér og ég er virkilega spennt að ferðast þar um í vetur! Ég verð svo líka að nefna að fjallahjólið mitt, sem ég kalla Kubb, er búinn að vera minn besti félagi í sumar. Ég skellti mér á frábært fjallahjólanámskeið í byrjun sumars hjá Hjólaskólanum og hef verið ofvirk síðan, þetta er svo ofboðslega skemmtilegt! Það má segja að ég hafi lagt fjallgöngur og hlaup á hilluna og er meira og minna bara búin að hjóla í sumar.“

View this post on Instagram

Gul viðvörun og allir ferskir í blíðunni í Þórsmörk 🌞

A post shared by Metta (@mettanetta) on Jul 19, 2020 at 1:36pm PDT

Hverjir eru, að þínu mati, kostirnir við að ferðast innanlands?

„Vá, það eru svo ótrúlega margir kostir við að ferðast innanlands! Það er alveg ótrúleg og eiginlega ólýsanleg tilfinning að heimsækja nýjan stað og hugsa „þetta er bara heimalandið mitt!“. Ég er endalaust að uppgötva nýja staði um land allt og ég verð bara meira og meira ástfangin af fallega landinu okkar. Svo er alla jafna miklu ódýrara að ferðast innanlands og að mínu mati mikið frelsi fólgið í því að geta hoppað upp í bíl og verið kominn í ósnorta náttúru á örskammri stundu.“

Með hvaða stöðum mælir þú með að fólk heimsæki?

„Mér finnst að allir Íslendingar ættu að hafa Landmannalaugar, Þórsmörk og Kerlingarfjöll ofarlega á ferðalistanum sínum. Þetta eru kannski ekki auðveldustu staðirnir til að heimsækja en það er akkúrat hluti af því sem gerir þá svo einstaka! Litafegurðin á þeim öllum er ótrúleg og erfitt að fanga fegurðina á mynd. Einn vinur minn orðaði það svo vel þegar hann var á göngu nærri Landmannalaugum þegar hann sagði að það væri erfitt að velja átt til að taka mynd því það var svo mikil fegurð hvert sem hann leit.“

View this post on Instagram

Krakkar við unnum í lottóinu, Ísland er best 🌟

A post shared by Metta (@mettanetta) on Jul 30, 2020 at 12:16pm PDT

Hvað er ómissandi í ferðalagið?

„Ég verð að hafa prjóna- eða heklverkefni með mér í ferðalagið og ég sé alltaf eftir því ef ég ákveð að taka það ekki með. Í ferðum þar sem ég er með allt á bakinu þá verð ég að segja jetboil til þess að gera kakóbolla (helst með smá baileys) til að hlýja sér. Það styttist svo í að fjallahjólið verði ómissandi í framtíðar ferðalögum.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is