Maður með astma neyddur til að vera með grímu

Það er skylda að vera með andlitsgrímur þegar almenningssamgöngur eru …
Það er skylda að vera með andlitsgrímur þegar almenningssamgöngur eru notaðar í Bretlandi. AFP

Karlmaður með alvarlegan öndunarfærasjúkdóm segist hafa verið neyddur til að vera með andlitsgrímu í flugi frá Jersey til Gatwick í Bretlandi. Maðurinn hafði prentað út kort sem sýndi að hann væri undanskilinn grímuskyldu. 

Kortið sýndi hann á Gatwick þegar hann fór til Jersey og var það þá tekið gilt. Á heimleiðinni var það hins vegar ekki tekið gilt og hann neyddur til þess að setja á sig grímu. Grímuskylda er í öllum almenningssamgöngum en fólk getur fengið undanþágu frá þeirri reglu vegna aldurs, heilsu eða fötlunar. 

Karlmaðurinn, sem ekki vildi koma fram undir nafni í viðtali við BBC, sagði að hann gæti ekki verið með neitt utan um hálsinn eða andlitið. 

„Hvort sem það er póló-bolur eða trefill, þá fæ ég köfnunartilfinningu. Mér finnst alltaf erfiðara og erfiðara að draga andann. Það er eins og það sé stálgrind utan um brjóstkassann,“ sagði maðurinn. 

Maðurinn prentaði út kort sem er að finna á vef hins opinbera í Bretlandi. „Starfsfólkið kom og talaði við mig sex sinnum. Mér var sagt að 30 mínútna seinkunin væri mér að kenna,“ sagði maðurinn. 

Hann segir að starfsfólk vélarinnar hafi niðurlægt hann, öskrað á hann og hlegið að honum. Hann ákvað að byrja að taka upp á símann sinn og á því myndbandi sést flugstjóri vélarinnar ekki taka kortið hans gilt. Flugstjórinn sagði honum að ef hann setti ekki upp grímu yrði honum vísað frá borði. Hann ákvað því að setja upp grímu. 

„Ég myndi gera hvað sem er til að forðast það sem hefur áhrif á öndun mína. Það er hræðilegra en 100 farþegar að niðurlægja mig, en að lokum sá ég ekki neitt annað í stöðunni,“ sagði maðurinn, sem lenti í oföndun í fluginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert