Fór á puttanum til Nepals að leita að ástinni

Blaðamaðurinn Nancy Guri Duncan og ljósmyndarinn Francois Lea Diascorn kynntust …
Blaðamaðurinn Nancy Guri Duncan og ljósmyndarinn Francois Lea Diascorn kynntust í Indlandi.

Blaðamaðurinn Nancy Guri Duncan og ljósmyndarinn Francois Lea Diascorn kynntust á Indlandi þar sem þau fjölluðu um togstreituna á landamærum Indlands og Pakistans árið 1971. Í dag búa þau saman í Suður-Frakklandi. Nancy og Francois sögðu The Guardian frá því hvernig þau kynntust. 

Árið 1971 vann Nancy sem blaðamaður í Suðaustur-Asíu. Hún er frá Bandaríkjunum og var á ferðalagi á Indlandi til að hitta vini sína frá Bandaríkjunum. Þau ferðuðust til Kolkata og dvöldu á gistiheimili Hjálpræðishersins þar í borg. 

Á gistiheimilinu hittust þau Nancy og Francois fyrst. Francois er frá Frakklandi og var þar á ferðalagi með öðrum blaðaljósmyndara. 

„Ég varð hrifin það kvöld. Francois virtist vera mín týpa,“ sagði Nancy. Nancy og Francois höfðu þó ekki mikinn tíma til að kynnast því daginn eftir voru Francois og vinur hans á leið til landamæra Indlands og Pakistans. „Ég var miður mín en vinur minn sagði mér að fá nafn og heimilisfang hjá honum. Það var samt ekki mikið,“ sagði Nancy. Francois var líka hrifinn af Nancy en fannst staðan ómöguleg. 

„Hún var bandarísk, ég franskur og við vorum á leiðinni hvort í sína áttina. Ég sá ekki hvernig þetta gæti gengið,“ sagði Francois. Hann fór daginn eftir en komst þó ekki langt því þeir töldu verkefnið vera of hættulegt. 

„Vinkona mín sagði mér að hún hefði séð frönsku strákana þannig að við hlupum niður í matsalinn,“ sagði Nancy. Þar hittust þau og náðu að eyða nokkrum dögum saman eftir það. Nancy var hins vegar á leið til Katmandú í Nepal og sagði Francois að hún myndi koma aftur eftir tvær vikur til að hitta hann. 

„Ég man ekki af hverju en af einhverjum ástæðum var vinur minn orðinn peningalaus. Ég vissi að mig langaði að sjá Nancy aftur svo við fórum á puttanum til Katmandú og ég fór á milli hótela að leita að henni,“ sagði Francois. Hann leitaði að henni í nokkra daga í borginni og að lokum kom hann auga á hana hjólandi um borgina. 

„Á augnablikinu sem hann kom að finna mig vissum við bæði að þessu var ætlað að vera.“

Þau eyddu næstu mánuðum á ferðalagi um Asíu áður en hún flutti til Singapúr og hann til Frakklands. Áður en leiðir þeirra skildi fengu þau tækifæri til að taka viðtal við og taka myndir af Dalai Lama. 

Vorið 1972 flutti Nancy til Parísar svo þau gætu verið saman. Þau giftu sig í Montmartre sjö árum síðar. „Við bjuggum í París í yfir 40 ár áður en við fluttum í bústaðinn okkar í Suður-Frakklandi fyrir fjórum árum,“ sagði Nancy. 

Þau ferðuðust mikið um heiminn saman, hún sem blaðamaður og hann sem ljósmyndari. „Að ferðast með annarri manneskju er raunverulega prófsteinn á hvort þið séuð á sömu bylgjulengd,“ sagði Francois.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert