Móður og barni vísað frá borði

Jodi Degyansky og syni hennar Hayes var vísað frá borði …
Jodi Degyansky og syni hennar Hayes var vísað frá borði því hann var ekki með grímu. Ljósmynd/Facebook

Móður og barni var vísað frá borði vélar Southwest Airlines í Bandaríkjunum á laugardaginn síðastliðinn vegna þess tveggja ára gamalt barnið tók af sér grímuna til að fá sér að borða fyrir flugtak. 

Jodie Degyansky var nýkomin til Bandaríkjanna frá Ítalíu og var á leið frá Flórídaríki til Chicago-borgar. Eftir að mæðginin voru komin í sæti sín tók sonur hennar Hayes af sér andlitsgrímuna sína til að fá sér nasl sem var boðið upp á. 

Dagyansky segir í viðtali við USA Today að flugþjónn hafi beðið hana um að setja grímuna aftur á son sinn en hún sagðist ekki getað gert það alveg strax því hann væri að borða. 

Flugvélin lagði svo af stað úr stæði sínu út á flugbrautina en var snúið við eftir að starfsfólk vélarinnar tók þá ákvörðun um að Degyansky og sonur hennar ættu að yfirgefa vélina. 

Hún segist hafa átt í orðaskaki við starfsfólkið í um 15 mínútur þar sem sonur hennar var kominn með grímuna aftur fyrir vit sín. Starfsfólk vélarinnar sagði hinsvegar að foreldrar notuðu nasl og nesti sem afsökun fyrir að setja ekki grímur á börn sín. 

Bandaríska heilbrigðismálastofnunin CDC hefur gefið það út að börn eldri en 2 ára þurfi að vera með grímur fyrir nefi og munni sé ekki mögulegt að halda fjarlægð við annað fólk. 

Degyansky segir að hún sé fylgjandi grímuskyldu en kallar eftir því að flugvélög sýni börnum meiri skilning. „Við erum að reyna að venjast þessu, en hann er tveggja ára. Hann varð bókstaflega tveggja ára fyrir tveimur vikum. Ég veit það þarf að vera lína einhverstaðar en það þarf að taka tillit til aðstæðna,“ sagði Degyansky.

Hún segir upplifunina hafa verið niðurlægjandi. Þau komust í flug daginn eftir en það kostaði sitt. „Ég trúði ekki að þetta hafi gerst. Ég var í öngum mínum, hvernig í fjandanum átti ég að komast heim? Hvað ef ég hefði ekki tök á því að kaupa miða fyrir 600 dollara?“ sagði Degyansky. Hún hvetur foreldra á ferðalagi að vinna heimavinnuna sína og passa upp á grímuskylduna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert