Róm með fyrsta fimm stjörnu flugvöllinn

Fólk með grímur á ferðinni í Róm á Ítalíu.
Fólk með grímur á ferðinni í Róm á Ítalíu. AFP

Fiumicino flugvöllurinn í Róm er fyrsti flugvöllur í heimi til þess að fá fimm stjörnur í nýju COVID-19-mati hjá Skytrax. Skytrax er meðal annars þekkt fyrir að velja árlega bestu flugvelli í heimi. 

Ítalía fór illa út úr kórónuveirufaraldrinum fyrr á árinu en nú virðast Ítalir hafa lært svo vel af reynslunni að það gæti reynst einna öruggast að ferðast um flugvöllinn í Róm. Flugvöllurinn, sem einnig er kenndur við listamanninn Leonardo Da Vinci, er fjölfarnasti flugvöllur á Ítalíu. 

Við mat á flugvöllunum er meðal annars tekið mið af skimunum, hreinlæti og upplýsingagjöf að því er fram kemur á vef CNN. Gríðarlega stór skimunarmiðstöð við flugvöllinn í Róm vakti athygli hjá Skytrax en flugvellinum var líka hrósað fyrir skýrar upplýsingar, grímunotkun og fyrir hversu áberandi fólk sem sinnti ræstingum var.

Í bókum Skytrax þýða fimm stjörnur mjög mikið hreinlæti; fjórar stjörnur þýða gott en þrjár stjörnur má túlka sem hreinlæti í meðallagi. Minnst er hægt að fá tvær stjörnur en á kórónuveiruskalanum er hreinlæti ábótavant þegar flugvellir fá aðeins tvær stjörnur. 

Ekki er búið að kanna alla flugvelli en starfsfólk Skytrax hefur til að mynda aðeins ferðast innan Evrópu. Malaga-flugvöllur á Spáni fékk bara þrjár stjörnur sem og flugvöllurinn í Nice í Frakklandi og London Heathrow á Englandi.

Hér má sjá farþega á flugvellinum í Róm í sumar.
Hér má sjá farþega á flugvellinum í Róm í sumar. AFP
mbl.is