Hinir frægu ferðast með leynd

Drake bauð vinahópi til Barbados og hlaut mikla gagnrýni fyrir.
Drake bauð vinahópi til Barbados og hlaut mikla gagnrýni fyrir.

Það eru ekki allir hættir að ferðast vegna kórónuveirufaraldursins og það á einkum við um ríka og fræga fólkið. Stjörnur á borð við Drake, Hailey Bieber og fleiri hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir að vera að ferðast á þessum viðsjárverðu tímum á sama tíma og þau hvetja aðra til þess að halda sig heima. En heimildir herma að margar stjörnur leggi gríðarlega mikið á sig og verji miklum fjármunum til þess að tryggja að ekki komist upp um ferðalög þeirra. 

Samkvæmt úttekt tímaritsins Vice kjósa flestir að ferðast með einkaþotum eða snekkjum og kaupa upp heilu svæðin og eyjurnar til þess að forðast að vera innan um aðra.

Catherine Heald, eigandi ferðaskrifstofunnar Remote Lands, segist hafa skipulagt ferð fyrir eina mjög áberandi fjölskyldu til Suður-Kóreu. Sú fjölskylda keypti upp allt fyrsta farrýmið í flugvél og við komuna til landsins fóru þau í Covid-próf hjá einkastofu. Þau ferðuðust svo um landið með mikilli leynd. Þá segist Heald einnig hafa skipulagt ferð fyrir frægt par til Maldíveyja en parið flaug þangað með einkaþotu. Þar eru þau á einkaeyju og þurfa því ekki að umgangast neinn.

Jason Couvillion, eigandi ferðaskrifstofunnar Bruvion, segir þá leggja mikla áherslu á að tryggja að ekki fréttist um þessi ferðalög fræga fólksins. Hann segir marga af viðskiptavinum sínum vera frægt fólk sem hefur verið mjög áberandi í umræðunni um mikilvægi þess að halda sig heima vegna kórónuveirufaraldursins og það væri slæmt ef upp um það kæmist.

„Þau hafa lagt málstaðnum lið um að fylgja reglunum, vera með grímu og ekki vera í hópum. Það að þau svo ferðist gæti litið út eins og þau væru ekki að framfylgja reglunum. Þess vegna er mikilvægt að halda þessu öllu fjarri sviðsljósi fjölmiðla,“ segir Couvillion.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert