Argentína heillaði Harald

Tónlistarmaðurinn Haraldur Fannar eða Harald bjó í Paraná í Argentínu. …
Tónlistarmaðurinn Haraldur Fannar eða Harald bjó í Paraná í Argentínu. Hér er hann áin Rio Paraná sem er næststærsta á í Suður-Ameríku en hún rann í gegnum garðinn í húsinu hans í Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Haraldur Fannar Arngrímsson gefur út sitt fyrsta lag í dag undir listamannsnafninu Harald. Lagið Fullkomin er fyrsta lagið af væntanlegri EP-plötu sem kemur út næsta vor. Haraldur er meðal annars undir suðrænum áhrifum í lagasmíðum sínum þar sem hann dvaldi í eitt ár í Argentínu sem skiptinemi.

Haraldur sem er 21 árs fékk fyrsta gítarinn sex ára og byrjaði í klassísku gítarnámi nokkrum árum seinna. Hann er þakklátur fyrir að vera alin upp við tónlist en í ljós kemur að tónlistin er Haraldi í blóð borin. Faðir hans er Arngrímur Fannar úr hljómsveitinni Skítamóral. 

„Ég ólst upp við tónlist. Það er bæði pabbi sem er í Skítamóral og svo er það Einar Bárðarson bróðir hans sem er guðfaðir minn. Hann á nú sína smelli og reynslumikill í tónlistarbransanum.“

Ferðaðist með fósturfjölskyldunni

„Þegar ég var 16 ára ákvað ég að sækja um skiptinám. Mig langaði til að læra spænsku en mig langaði ekki að fara til lands sem ég gæti farið í sumarfrí til ári seinna eins og til Spánar. Suður-Ameríka varð því fyrir valinu og Argentína heillaði en svo fékk ég líka tækifæri til að kynnast nágrannalöndunum.  

Ég var heppin að lenda hjá góðri fjölskyldu sem ég bjó hjá. Þau ættleiddu mig þannig séð yfir þetta ár. Við ferðuðumst til dæmis til Úrúgvæ sem var nú lengi hluti af Argentínu en varð svo sjálfstætt land. Við fórum þangað í sumarfrí í janúarmánuði, það var svolítið sérstakt. Svo fékk ég að fara til Paragvæ og Brasilíu. Svo ferðast ég hringinn í kringum alla Argentínu. Ég bjó í norðrinu sem er í rauninni allt annað land en Suður-Argentína þar sem að Argentína er lengri en Evrópa sjálf, svona tæknilega séð.“

Sem dæmi um hversu heppinn Haraldur var með fjölskyldu sína nefnir hann að þegar hann fór út í ágúst 2016 fóru átta aðrir skiptinemar út með honum. Hann segir að líklega 60 prósent skiptinemanna hafi neyðst til að skipta um fjölskyldu oftar en einu sinni. Hann fór aftur á móti í kaþólskan einkaskóla og var í bekk með argentínskum bróður sínum og fór strax inn í vinahóp hans. Hann leggur þó áherslu á að almennt hafi fólkið í Argentínu verið mjög vinalegt og ekki skemmdi fyrir að hann er ljóshærður og bláeygður.

Haraldur með skiptinemabróður sínum Joaco Petric. Hér eru þeir í …
Haraldur með skiptinemabróður sínum Joaco Petric. Hér eru þeir í skólaferðalagi í Jujuy-fylgi við fjall í sjö mismunandi litum. Ljósmynd/Aðsend

Hann lagði líka mikið á sig til að ná spænskunni sem fyrst.

„Ég laug að öllum þegar ég mætti að ég kynni enga ensku þannig þau gátu ekki talað við mig á ensku. Þess vegna lærði ég hana hratt af því það var í rauninni ekkert annað en spænsku. Ég fór út í ágúst og í janúar small allt.“

Mikill munur á skemmtanalífinu

Músíkin og dansinn er órjúfanlegur hluti af argentínskri menningu. Haraldur prófaði aðeins fyrir sér í tangó, lærði flamingó á gítar en aðrar vinsælar tónlistarstefnur úti segir Haraldur vera cumbia og reggaeton. Hann reyndi líka fyrir sér í dansinum en mismunandi dansstílar fylgja tónlistarstefnunum. 

„Ég reyndi að fara á tangóæfingar en það skilaði ekki miklu. Það eru allskonar neðanjarðar tangóklúbbar í Búenos Aíres þar sem fólk kemur saman og dansar bara. Þetta er eins og í bíómyndum. Það er rosalega falleg upplifun að sjá fólk dansa bara ef maður finnur svona stað. Þetta er í rauninni alveg eins og þú ímyndar þér, það er rauðvín, lifandi tónlist í horninu og tangó.“

Hvernig finnst þér nætur- og skemmtanalíf á Íslandi miðað við að hafa upplifað þetta?

„Það er virkilega mikill munur. Þegar fólk fer út að skemmta sér í Argentínu þá fer það út að dansa. Það er ekkert eins og heima þegar fólk fer á skemmtistaði og kannski reynir að dilla sér eitthvað,“ segir Haraldur. Hann segir ekki mörg tækifæri til þess að dansa af sömu ástríðu og í Argentínu á Íslandi. 

Menning landanna er greinilega ólík og það er ekki bara Íslendingar sem fá menningarsjokk þegar þeir fara til Argentínu. Fósturbróðir hans frá Argentínu heimsótti hann í desember síðastiðnum og dvaldi á Íslandi í tvo mánuði. Haraldur segir bróður sinn hafa fengið menningarsjokk við komuna til Íslands.

Haraldur að tónleikum með hljómsveit úr bænum. Hann kynntist hljómsveitinni …
Haraldur að tónleikum með hljómsveit úr bænum. Hann kynntist hljómsveitinni á bar og fékk að æfa aðeins með þeim. Ljósmynd/Aðsend

Gítarleikari sem kann mörg lög er ómissandi í íslenskum partíum. Það hjálpaði Haraldi ekki endilega í Argentínu þar sem þar eru eiginlega bara spiluð lög sem enginn kann þegar fólk skemmtir sér í heimahúsi. Fólk tekur þátt í einskonar spuna. Það býr til takt, dansar og notar röddina með. „Það tók smá tíma í að átta sig á hvernig það virkar. Það var klárlega mjög gefandi.“

Argentínudvölin hefur áhrif á nokkur lög á væntanlegri plötu

Haraldur segir að menningin í Argentínu hafi gefið honum margt, veitt honum nýja sýn og kynnt hann fyrir nýjum hljómum og tónlistarstefnum.

„Tónlistarstefnan hefur ekki beint áhrif á Fullkomin sem er að koma út í dag. En hún hefur klárlega áhrif á mörg önnur lög sem ég mun koma til með að gefa út á næstu mánuðum. Þetta lag er fyrsta lag af röð laga sem mynda EP-plötu sem vonandi kemur út snemma árs á næsta ári. Þar er til dæmis eitt lag sem er gjörsamlega innblásið af Argentínu,“ segir tónlistarmaðurinn Haraldur Fannar eða Harald. 

mbl.is