Kynntist eiginmanninum á bakpokaferðalagi um heiminn

Tinna Sif Sigurðardóttir er á því að líkaminn sé dýrmætur og megi vera alls konar. Hún er að bæta sambandið sitt við líkamann og stundar m.a. acro-jóga með Jacob Wood, eiginmanni sínum.

Tinna Sif og Jacob Wood hafa brennandi áhuga á öllu því sem viðkemur heilnæmum, heildrænum og sjálfbærum lífsstíl. Þau eru par sem hefur fundið taktinn við að búa saman, lifa saman og vinna saman.

„Við vinnum mikið saman og starf okkar felst meðal annars í því að aðstoða fólk að læra inn á líkama sinn og tengja við innri kjarna sinn í gegnum hreyfingu. Það gerum við í gegnum jóga, eins og acro-jóga, handstöður, hreinar ilmkjarnaolíur og mat. Við þetta höfum við starfað bæði hér heima og erlendis.“

Tinna Sif kynntist acro-jóga á Balí árið 2015 þegar hún var ein á bakpokaferðalagi um heiminn.

„Ég kolféll alveg fyrir því, sem leiddi mig svo á kennaranámskeið í acro-jóga í Kanada, en þar kynntumst við Jacob.

Acro-jóga er blanda af jóga og fimleikum þar sem tveir eða fleiri vinna saman að því að gera æfingar. Það geta bæði verið æfingar sem oft minna á dans eða flæði eða meira slakandi æfingar sem samanstanda af nuddi og teygjum. Þetta eru alveg dásamlegar æfingar sem styrkja líkama og sál og frábær leið til þess að styrkja hæfileika okkar til þess að tjá okkur og hlusta á og vinna með öðrum. Mér fannst eins og acro-jóga væri einmitt íþróttin sem mig hafði dreymt um að æfa sem barn. Ég hef engan íþróttabakgrunn og byrjaði ekki að hreyfa mig af neinu viti fyrr en rétt fyrir tvítugt. Það frábæra er að hægt er að byrja að stunda acro-jóga á hvaða aldri sem er og ég hef framkvæmt ýmsar hreyfingar sem mig hefði ekki einu sinni dreymt um að geta fyrir nokkrum árum.

Saman höfum við hjónin síðan kennt acro-jóga námskeið um allt land hér heima en einnig erlendis.“

Hvaða mataræði aðhyllist þú og hvað þykir þér best að borða?

„Ég og maðurinn minn borðum að mestu leyti mat úr plöntum eingöngu vegna þess að þannig líður okkur best líkamlega og andlega en einnig eru umhverfisástæður að baki þeirri ákvörðun.

Við viljum hins vegar ekki setja okkur í box eða skilgreina okkur miðað við eitthvert ákveðið mataræði, okkur finnst það skapa stress sem hefur þá neikvæð áhrif á okkur líkamlega og andlega.

Við reynum að rækta eins mikið og við getum af okkar eigin fæðu og erum alltaf að læra meira og meira um það og prófa okkur áfram. Við erum bæði mjög dugleg að elda og elskum að gera ýmiss konar tilraunir í eldhúsinu. Okkur þykja ýmiss konar buddha-skálar góðar, sem samanstanda þá af baunum, grænmeti, sætum kartöflum, graskeri eða hrísgrjónum og síðan ljúffengri tahini- eða kasjúdressingu. Í uppáhaldi er einnig heimagert hrámúslí sem er gert úr spíruðu bókhveiti og ýmsu öðru góðgæti og síðan heimagert súrdeigsbrauð með avókadó, spírum og grænmeti.“

Hefurðu alltaf verið á plöntufæði?

„Ég byrjaði á plöntufæði fyrir nokkrum árum en það var hluti af hreinsun sem ég tók þátt í. Ég hafði mínar efasemdir en fram að því borðaði ég mikið af kjöti og fisk. Ég ákvað samt að gefa þessu tækifæri í nokkrar vikur og þá varð ekki aftur snúið. Meltingin mín varð allt önnur og samband mitt við mat snarbreyttist og augu mín galopnuðust fyrir nýjum tækifærum í matargerð. Ég varð algjörlega heilluð og ákvað að fara í skóla í Bandaríkjunum, Living Light Culinary Institute, og lærði þar að vera hráfæðiskokkur.“

Er að bæta sambandið við líkamann

Tinna er óhrædd við að birta myndir af sér án fata á samfélagsmiðlum. Þegar hún er spurð nánar út í það segir hún að við komum nakinn inn í þennan heim og það sé fátt fallegra en líkaminn, sama hvernig hann er í laginu.

„Síðan finnst mér eins og það myndist ákveðin skömm fyrir nekt þegar líður á og við eigum að fela okkur eða ákveðna líkamsparta og passa að sýna ekki of mikið. Það sé klámfengið og óhreint. Einnig ýtir samfélagið og samfélagsmiðlar undir það að við lítum út á einhvern ákveðinn hátt og ef ekki þá erum við ekki nógu góð. Það er bara ekki raunhæft að við lítum öll eins út, fegurðin er í fjölbreytileikanum að mínu mati.

Líkaminn er ótrúlegt fyrirbæri og samt hugsum við oft svo illa um hann, bæði hvernig við förum með hann eins og með hreyfingu, mataræði og svefn, og líka með gagnrýnum hugsunum okkar sem eru oft og tíðum full ýktar eða úr samhengi. Ég hef ekki farið varhluta af þessu sjálf og hef unnið í því síðustu ár að bæta samband mitt við líkama minn; í stað þess að gagnrýna hann reyni ég að finna hvernig ég get elskað og hlustað betur á hann. Hvernig ég get farið með hann á sem bestan hátt því hann er algjört undraverk og þótt hann sé ekki alltaf eins og ég vildi eru það líka oft á tíðum óraunhæfar væntingar og eitthvað sem samfélagið hefur ýtt undir. Mín reynsla er sú að um leið og við byrjum að hlusta á og hugsa um líkama okkar gefur hann okkur svo margfalt til baka.“

Nota ilmkjarna í matargerð

Hjónin nota ilmkjarnaolíur daglega. Ekki bara til innöndunar heldur líka í matargerð.

„Við notum eingöngu hreinar „þerapútískar“ ilmkjarnaolíur frá Young Living því við vitum hvaðan þær koma og það skiptir okkur máli. Við notum einnig hreinlætisvörur frá þeim sem og ýmsar aðrar vörur. Við reynum eftir fremsta megni að lifa eins hreinum lífsstíl og okkur er unnt og velja vel það sem við höfum kost á en auðvitað er ýmislegt sem ekki er hægt að hafa stjórn á. Þessar vörur hafa reynst okkur svo vel að við gátum ekki annað en byrjað að deila því, svo við höldum reglulega námskeið þar sem við kynnum olíurnar og aðrar vörur frá Young Living fyrir áhugasömum.“

Tinnu Sif finnst gott að byrja daginn snemma og hreyfa sig.

„Morgunrútínan okkar samanstendur af ýmsu og er aðeins breytileg. Með því að byrja daginn vel er sleginn tónninn fyrir daginn. Við hugleiðum og förum með jákvæðar staðhæfingar og þakkir, gerum öndunaræfingar og notum ilmkjarnaolíur og drekkum seremóníukakó. Einnig hreyfum við okkur og teygjum á, förum út og fáum okkur frískt loft og förum í kalda sturtu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »