Tífalt fleiri heimsóknir eftir Eurovision-myndina

Sumarið á Húsavík gekk vonum framar.
Sumarið á Húsavík gekk vonum framar. Ljósmynd/Unsplash

Hinrik Wöhler, forstöðumaður Húsavíkurstofu, segir að sumarið hafi gengið afar vel og að flestir séu sammála um að það hafi gengið vonum framar. Eurovision-kvikmynd Will Ferrell, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, spilaði þar ákveðið hlutverk en hún var frumsýnd undir lok júlí. 

„Við fundum fyrir miklum áhuga á Húsavík á vef- og samfélagsmiðlum og einnig var mikið líf í bænum í sumar. Vikurnar eftir að kvikmyndin var frumsýnd vorum við að fá allt að tífalt fleiri heimsóknir á vefsíðuna okkar en við erum vön,“ segir Hinrik í viðtali við mbl.is. 

„Við erum með frábært tækifæri með Eurovision og allt sem því tengist. Þó það sé erfitt að staðfesta eitt né neitt á þessum tímum þá er klárlega stefnan að nýta þennan meðbyr sem hefur verið með Húsavík síðustu misseri. Áhuginn á kvikmyndinni og bænum hefur verið mikill og við finnum enn fyrir því, en allt sem tengist kvikmyndinni er enn mjög vinsælt á okkur miðlum,“ segir Hinrik. Þó áhuginn á kvikmyndinni muni kannski dvína með tímanum er Hinrik bjartsýnn á að Eurovision keppnin muni nýtast áfram til markaðssetningar. „Ég held að áhrifin af kvikmyndinni mun teygja sig fram á næstu ár og við vonum að við fáum að upplifa þessi áhrif á næsta sumar,“ segir Hinrik. 

Húsavíkurstofa gaf út í vikunni app til þess að auðvelda ferðamönnum aðgengi að upp­lýs­ing­um um afþrey­ingu og þjón­ustu á svæðinu. Verkefnið var unnið í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga. 

„Það er ekkert launungarmál að næstu mánuðir verða afar erfiðir fyrir ferðaþjónustuna og sveitarfélagið en við verðum að halda áfram veginn og horfa bjartsýn til framtíðar. Þó að daginn tekur að stytta þá er enn úrval af afþreyingu og þjónustu í boði yfir vetrartímann og ef aðstæður leyfa er kjörið fyrir innlenda ferðamenn að stökkva til Húsavíkur í helgarfrí síðar í vetur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert