Flúði appelsínugula viðvörun

Hrönn ásamt dóttur sinni.
Hrönn ásamt dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradís átti óvenjulegt sumar fyrir margra hluta sakir. Vinnan tók yfir og hún rétt náði einni sumarbústaðarferð og einni útilegu. Hún telur að kórónuveiru-faraldurinn hafi kennt okkur öllum að meta betur hluti á borð við samveru og viðburði og hlakkar til að bjóða almenning aftur velkominn í Bíó Paradís eftir miklar endurbætur.

Hvernig var sumarið hjá þér?

„Þetta sumar var óvenjulegt því þetta er fyrsta sumarið í 14 ár sem við eiginmaður minn og fjölskylda förum ekki í bústaðinn okkar við Michigan vatn. Svo það var undarlegt og við söknuðum þess mikið. En svo voru aðrir óvenjulegir hlutir í gangi, ég ætlaði að taka mér gott frí og skoða landið rækilega en framkvæmdir í Bíó Paradís tóku fljótt yfir öll okkar plön og við rétt náðum einni sumarbústaðarferð og einni útilegu en annars kallaði skyldan á mig í Paradís og ég var á haus þar í allt sumar.“

Ferðaðistu eitthvað um landið?

„Planið hjá okkur var að fara norður og austur í útilegu í kringum afmælið mitt, því mér finnst svo gaman að vera úti í náttúrunni og vil helst vera með bál og mikið vesen í kringum mig þegar ég á afmæli. Það gekk nú ekki betur en svo en það var gefin út appelsínugul viðvörun á þessum tíma fyrir þennan landshluta svo við flúðum á suðurland þar sem við brölluðum mikið og fórum á gamla uppáhaldsstaði þessa viku sem við vorum á ferðinni. För var svo heitið á heimildamyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirði sem er mín uppáhalds kvikmyndahátíð en hún var snögglega blásin af vegna annarrar COVID bylgju sem þá reið yfir um Verslunarmannahelgi.“

Hvað kom þér mest á óvart í sumarfríinu í sumar?

„Það var rólegra en ég hélt á þessum helstu ferðamannastöðum og sumir voru hreinlega lokaðir. Ég hélt að það yrði allt stappað af sturluðum Íslendingum á ferð, en það var ekki svo mikið af þeim. Svo kom það mér á óvart hvað gekk vel að ganga á fjöll með börnunum mínum eftir að ég sagði þeim að það væru morðkindur í öræfasveit. Ég hef lesið um villifé á þessum slóðum svo þetta er kannski engin lýgi en þær voru mjög fljótar að greikka sporið í hvert skipti sem við sáum kind. Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir? Ég elska Snæfellsnesið og Breiðafjörðinn, Vestfirði, Mývatn og Dimmuborgir og Ásbyrgi. Ég hef örsjaldan komið á hálendið en það er alveg einstakt og ég myndi vilja gera meira af því.“

Gerðir þú eitthvað í sumar sem þig langar ekki að gera aftur?

„Já. Ég komst ekki í nógu mörg ferðalög og var þess í stað alltof mikið að hamast í vinnunni. Mér finnst það ekki gott sumarplan og mun reyna að forðast það í framtíðinni.“

Hvað er framundan?

„Mjög spennandi tímar því nú sér fyrir endann á framkvæmdunum og við getum farið að bjóða almenning aftur velkominn í stórkostlega og endurbætta Bíó Paradís! Hvernig leggst veturinn í þig? Hann leggst bara vel í mig þrátt fyrir áskoranir sem heimsfaraldurinn hefur í för með sér. Ég held við kunnum öll betur að meta þetta venjulega, viðburði, félagsskap og samveru. Ég held við séum öll tilbúin að leggja meira á okkur fyrir gæðastundir og erum þakklátari fyrir allt það góða í lífinu.“

Dóttir Hrannar að njóta náttúrunnar.
Dóttir Hrannar að njóta náttúrunnar. Ljósmynd/Aðsend
Fjölskyldan í útilegu.
Fjölskyldan í útilegu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert