Aldrei séð annað eins rusl á sjö árum

Ferðamenn sem gistu á Hótel Þórstúni skildu bæði eftir eigur …
Ferðamenn sem gistu á Hótel Þórstúni skildu bæði eftir eigur og rusl. Ljósmynd/Guðrún Valdís Þórisdóttir

Ljót sjón blasti við Guðrúnu Valdísi Þórisdóttur í gær þegar hún kom að illa farinni íbúð ferðamanna sem gistu á íbúðarhóteli hennar. Guðrún Valdís hefur rekið Hótel Þóristún í sjö ár en aldrei upplifað annað eins og þegar tveir ferðmenn skildu allt eftir á hvolfi.

„Ég er með sex íbúðir og fólk gengur svakalega vel um, það er mín upplifun og reynsla. Ég er með mjög fínar íbúðir og góða einkunn á Booking,“ segir Guðrún. 

Annað var þó upp á teningnum á dögunum þegar kínverskir ferðamenn með breskt ríkisfang gistu hjá henni í fjóra daga. Guðrún vill benda öðru fólki sem býður upp á gistingu að hafa varann á. Guðrún telur líklegt að ferðamennirnir séu enn á landinu enda dvelja flestir sem koma til Íslands á landinu í lengri tíma vegna kórónuveirunnar. Ferðmennirnir á landinu eru ekki svo margir. 

„Á meðan þau stoppuðu hjá mér voru þau búin að senda mér skilaboð til að segja mér hvað þau væru ánægð og íbúðin æðisleg. Þau óskuðu eftir grilli á veröndina hjá sér sem var græjað fyrir þau en ég hitti þau aldrei persónulega. Þau voru ekki á staðnum þegar þau fengu grillið en voru búin að vera í samskiptum við mig. Svo þegar ég kom að íbúðinni í gær eftir að þau fóru hringdi ég í þau af því að þau skildu eftir fullt af hlutum. Þau skildu eftir sólgleraugu, dýra skó, ferðatösku,“ segir Guðrún en á myndum sem hún tók má auk þess sjá drasl víða í íbúðinni. 

Guðrún talaði við konuna þegar hún hringdi í þau til að láta vita af óskilamununum. Í áfalli tjáði Guðrún konunni að henni þætti þetta ótrúlega leiðinlegt og hefði aldrei lent í öðru eins á sjö árum. Guðrún fékk það í bakið og fékk aðeins einkunnina einn á Booking.

Guðrún varð ekki fyrir tjóni fyrir utan það að hún þarf að eyða töluverðum tíma í að taka til. 

„Þetta er ógeðslegt. Það voru snýtubréf um allt, þau hentu snýtubréfinu á gólfið. Bjuggu til ruslahaug í horninu. Maður þarf að fara extra vel núna, maður er að sótthreinsa allt.“

Guðrún var á fullu að taka til og undirbúa íbúð fyrir næstu gesti sem koma í dag þegar blaðamaður hringdi í hana. Þrátt fyrir áfallið er hún byrjuð að sjá ljósið í myrkrinu. „Ég reyni að sjá einhvern húmor í þessu núna,“ segir Guðrún að lokum.

Fólkið skildi eftir ferðatösku.
Fólkið skildi eftir ferðatösku. Ljósmynd/Guðrún Valdís Þórisdóttir
Ljósmynd/Guðrún Valdís Þórisdóttir
Ljósmynd/Guðrún Valdís Þórisdóttir
Ljósmynd/Guðrún Valdís Þórisdóttir
Ljósmynd/Guðrún Valdís Þórisdóttir
mbl.is