Tegel flugvöllur í Berlín lokar

Tegel árið 1974.
Tegel árið 1974. Ljósmynd/Wikipedia.org

Tegel-flugvelli í Berlín í Þýskalandi verður lokað 8. nóvember næstkomandi. Lengi hefur staðið til að loka flugvellinum, sem talinn er vera barn síns tíma. Skiptar skoðanir eru um völlinn. Margir Berlínarbúar hugsa til hans með hlýju en aðrir segja að tími sé til kominn að honum verði lokað.

Tegel verður lokað í nóvember en nýr flugvöllur, Berlin Brandenburg, verður opnaður viku fyrr, hinn 31. október og leysir hann þar með af hólmi. Nýi flugvöllurinn verður samsíða Schönefeld-flugvellinum í Berlín. Brandenburgvöllurinn heitir eftir Willy Brandt, fyrrverandi borgarstjóra Vestur-Berlínar.

Mannlaus Tegel flugvöllur í heimsfaraldrinum.
Mannlaus Tegel flugvöllur í heimsfaraldrinum. AFP

Það má með sanni segja að Berlínarbúar hafi beðið lengi eftir nýja flugvellinum en hann hefur verið í umræðunni frá falli Berlínarmúrsins árið 1989. Ýmislegt hefur gengið á síðan þá en framkvæmdir við völlinn hófust árið 2006. Þá hefur opnun hans verið frestað alls tíu sinnum.

Tegel-flugvöllur á sérstakan stað í hjarta margra íbúa Vestur-Berlínar en á tímum kalda stríðsins var hann merki um frelsi. Á árdögum sínum á 7. og 8. áratugnum var hann þó miklu meira en bara merki um frelsi; hann var tákn „nýju Berlínar“ og nútímans.

Á síðustu árum hefur farþegafjöldinn sem fer um völlinn aukist mikið og mikið álag verið á innviðum hans. Einstök hönnun vallarins gerir það að verkum að illa hefur gengið að stækka hann og því oft þröng á þingi bæði innan vallarins sem og á vegunum sem liggja að honum. 

Gert er ráð fyrir að síðasta vélin sem fer um Tegel-flugvöll verði vél frá franska flugfélginu Air France. Franska flugfélagið var einmitt það fyrsta til að lenda á vellinum árið 1960. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert