Aftur til Ástralíu eftir 3.000 ár

Í sumar var fjölda tasmaníuskolla sleppt út í náttúruna á meginlandi Ástralíu. Dýrategundin dó út á meginlandinu fyrir um 3.000 árum en hefur lifað góðu lífi á Tasmaníu, sem er eyja undan ströndum Ástralíu. 

Tasmaníuskollinn er einkennismerki eyjarinnar og nota mörg fyrirtæki og samtök hann í markaðssetningu sinni. Tasmaníuskollinn hlaut heimsfrægð í gegnum barnaefnið Looney Tunes en í því efni vakti skollinn Taz mikla lukku. 

Um tasmaníuskollann segir á Wikipediu: „Hann er á stærð við hund, kraftalega vaxinn og vöðvamikill og er stærsta núlifandi kjötæta af ætt pokadýra í heiminum. Tasmaníuskollinn hefur svartan feld, hann gefur frá sér vonda lykt sem magnast þegar honum er ógnað. Eitt helsta einkenni hans er mjög hávær og óhugnanlegur skrækur. Skollinn bæði veiðir sér til matar og étur hræ, er einlífisdýr, en étur þó einstaka sinnum í félagi við aðra skolla.“

Tasmaníuskollinn hefur verið í útrýmingarhættu síðastliðin ár vegna skæðs andlitskrabbameins. Yfirvöld í Ástralíu og Tasmaníu hafa unnið hörðum höndum að því að stækka stofninn og er flutningurinn til meginlands Ástralíu liður í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert