Phuket draugaeyja án ferðamannanna

Sundlaugar eru tómar, stólum staflað upp á strandveitingastöðunum og strendurnar sem vanalega eru fullar af fólki eru svo tómlegar að skjaldbökur eru komnar til þess að verpa. 

Á síðasta ári heimsóttu níu milljónir ferðamanna taílensku eyjuna Phuket og var hún næstvinsælasti ferðamannastaður landsins fyrir utan Bangkok. Í dag eru næstum því öll hótelin á eyjunni lokuð, en þar má finna þrjú þúsund hótel. Að sögn Preechawuts Keesins er eyjan orðin að draugabæ, en sjálfur á hann fimm næturklúbba og um 600 hótelherbergi. 

„Verra en flóðbylgja“

Í venjulegu árferði skilar ferðamannaiðnaðurinn um 80% af tekjum eyjarinnar og yfir 300 þúsund manns vinna í geiranum. Stór hluti þeirra hefur misst vinnuna í faraldrinum. 

Sumir hafa tekið á sig verulega tekjuskerðingu en aðrir hafa engan annan möguleika en að fara í langa röð eftir matargjöfum. 

„Við verðum að einbeita okkur að því að laða að okkur innlenda ferðamenn og staka ferðamenn í stað fjölda erlendra ferðamanna,“ sagði Kesin. Fyrir heimsfaraldurinn voru innlendir ferðamenn aðeins 30% af þeim sem komu til Phuket. 

Tilraunaverkefni er nú þegar farið af stað fyrir innlenda ferðamenn en verðmiðinn á þeim pökkum er lágur og því ólíklegur til þess að verða mikil búbót fyrir hótelin. 

„Við gerum ekki ráð fyrir að allt verði orðið venjulegt fyrr en eftir þrjú ár. Staðan er töluvert miklu verri en eftir flóðbylgjuna árið 2004,“ sagði Kongsak Khoopongsakorn.

mbl.is