Fékk að skoða Machu Picchu eftir 7 mánaða bið

Engir ferðamenn hafa fengið að koma að Machu Picchu í …
Engir ferðamenn hafa fengið að koma að Machu Picchu í 7 mánuði. Mynd úr safni.

Stjórnvöld í Perú opnuðu fornminjastaðinn Machu Picchu í fyrsta skipti í sjö mánuði á laugardaginn var. Aðeins einn ferðamaður fékk að fara að rústunum en hann hafði beðið eftir því í sjö mánuði.

Japanski ferðamaðurinn Jesse Takayama kom til Perú í mars til þess eins að ganga að Machu Picchu. Hann ætlaði sér aðeins að dvelja í Perú í nokkra daga til að fara að minjunum en vegna kórónuveiruheimsfaraldursins er hann enn þá strandaður í Perú. 

Hann gaf þó ekki upp drauminn um að fara að Machu Picchu upp á bátinn og fékk loks að fara á laugardaginn eftir að hannf ékk sérstaklet leyfi frá yfirvöldum. 

Alejandro Neyra, menningarmálaráðherra Perú, sagði í viðtali við Reuters í gær, mánudag, að Takayama hafi verið mjög þakklátur fyrir að hafa fengið leyfi til þess að fara að fornminjunum. 

Ráðherrann sagði að gert væri ráð fyrir að opna Machu Picchu aftur fyrir ferðamönnum í byrjun nóvember en að aðeins geti 675 manns gengið að minjunum á degi hverjum. Það er um 30% af þeim sem fá leyfi á hverjum degi í venjulegu árferði. 

„Við erum enn í miðjum heimsfaraldri. Við munum gera þetta skynsamlega,“ sagði Neyra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert