Haustið gengið merkilega vel fyrir sig

Náttfari og Garðar halda úr höfn á Húsavík.
Náttfari og Garðar halda úr höfn á Húsavík. Ljósmynd/Rafnar Orri Gunnarsson

Góð aðsókn hefur verið í hvalaskoðun hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík í haust. Á laugardaginn síðasta þurfti að bæta við siglingu um Skjálfandaflóa síðdegis því seldist upp í ferðina fyrr um daginn. 

Heimir, skipstjóri og einn af eigendum, Norðursiglingar, segir að miðað við hvernig sumarið leit út í byrjun hafi ræst nokkuð vel úr því. „Það var algjört svartnætti til að byrja með og svo kom góður sprettur í júlí,“ segir Heimir. Hann segir að þau hafi búist við að ágúst yrði góður en að svo hafi önnur bylgja faraldursins hafist og þá hafi þau þurft að draga seglin saman aftur. 

Hertar sóttvarnarreglur tóku gildi í byrjun ágúst sem kom sér illa fyrir flest fyrirtæki í ferðaþjónustu. Heimir segir þó að í haust hafi gengið ágætlega að vinna innan þess ramma sem sóttvarnaryfirvöld hafa sett og komast aðeins 18 farþegar um borð í hverja siglingu.

Norðursigling býr að sögn Heimis yfir mikilli aðlögunarhæfni og að það hafi sýnt sig í heimsfaraldrinum. Þegar fáir ferðamenn eru á ferðinni um landið hefur meiri tími gefist til að vinna með samstarfsaðilum fyrirtækisins á borð við Háskóla Íslands og umhverfissamtaka að rannsóknum. 

Á sama tíma og báturinn Náttfari hélt í þriggja tíma hvalaskoðun á Skjálfandaflóa á laugardaginn hélt Garðar, annar bátur Norðursiglingar, einnig úr höfn. Garðar var á leið í lengri ferð en vanalega því hann hélt vestur fyrir Ísland í átt að Grænlandi. 

Um borð í Garðari var sex manna áhöfn frá Norðursiglingu, Ocean Missions og Háskóla Íslands og tilgangur leiðangursins að koma fyrir tveimur neðansjávarhljóðupptökutækjum á sunnanverðu Grænlandssundi. Um er að ræða verkefni WWF (World Wildlife Fund) í samvinnu við Háskóla Íslands og markmiðið er að rannsaka umferð og atferli hvala í samhengi við skipaumferð.

Fyrst og fremst er áherslan á steypireyðar en einnig önnur stórhveli og vonast er til að upptökur náist af sléttbökum (e. North Atlantic Right Whale) en þeim hefur verið nánast útrýmt. Heildarlengd siglingarinnar er um 600 sjómílur sem er hátt í vegalengdina frá Húsavík til vesturstrandar Noregs.

Norðursigling var fengin til verksins en fyrirtækið hefur lengi átt í góðu samstarfi við Háskólann á sviði hvalarannsókna. Að sögn Heimis er það mikill heiður fyrir fyrirtækið að fá að taka þátt í þessu verkefni og ánægjulegt að sjá báta fyrirtækisins sigla út bæði til hvalaskoðunar og hvalarannsókna á sama tíma.

mbl.is