Boðið upp á skyndinúðlur um borð

Sykurlaust kók og skyndinúðlur hjá Virgin Australia.
Sykurlaust kók og skyndinúðlur hjá Virgin Australia. Ljósmynd/Facebook

Farþegi á viðskiptafarrými Virgin Australia varð fyrir miklum vonbrigðum með matinn sem reiddur var fram um borð á dögunum. Farþeginn greiddi háa upphæð fyrir flugmiða sinn frá Perth til Brisbane og fékk aðeins kókdós, skyndinúðlur og granólastykki um borð. 

„Ég var svangur og bjóst við að fá ágætan hádegisverð. Mér til mikilla vonbrigða voru mér boðnar skyndinúðlur frá Fantastic. Þetta kostar 80 sent í Coles. Þetta er óviðunandi miðað við verðið sem ég greiddi,“ sagði farþeginn við Yahoo News

Farþeginn, sem ekki vildi láta nafns getið, greiddi 177 þúsund íslenskar krónur fyrir sæti á viðskiptafarrými aðra leið. 

Annar farþegi Virgin Australia deildi mynd af matnum sínum. „Tveggja rétta hjá VA í dag: Forréttur rauðvín, sykurlaust Coke og stykki. Aðalréttur: Fantastic-skyndinúðlur.“

Í svari flugfélagsins til Yahoo News kemur fram að flugfélagið hafi einfaldað matseðil sinn um borð til muna á síðustu vikum. Öryggi farþega sé sett í fyrsta sæti og til að tryggja öryggi og fækka smitleiðum hafi matseðillinn verið einfaldaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert