Fóru í Evrópureisu í Washington

Bennett-hjónin fóru á hótel í Washington í stað þess að …
Bennett-hjónin fóru á hótel í Washington í stað þess að fara til Evrópu. Ljósmynd/Twitter

Nýgiftu hjónin Jacob og Abbie Bennett ætluðu í 30 daga brúðkaupsferð um Evrópu. Þau þurftu hins vegar að fresta brúðkaupsferðinni vegna kórónuveirufaraldursins. Í staðinn fyrir brúðkaupsferðina fóru þau í litla Evrópureisu inni á Conrad-hótelinu í Washington en hótelið er hluti af Hilton-hótelkeðjunni.

Bennett-hjónin áttu að fara til Evrópu í sumar. Ferðinni var aflýst vegna heimsfaraldursins. Þau ákváðu að fara í málamiðlunarferð til Washington í staðinn. Þegar þau innrituðu sig á hótelið tók Evrópa óvænt á móti þeim í Washington. 

„Ég sendi hótelinu tölvupóst til að spyrja út í öryggisreglur og nefndi að öðrum plönum hefði verið aflýst. Leyfðu mér bara að segja; þau gerðu allt of mikið,“ sagði herra Bennett í yfirlýsingu frá Hilton-hótelkeðjunni

Hjónin voru ekki að fresta brúðkaupsferðinni í fyrsta sinn í sumar heldur í annað skiptið. Í fyrra skiptið var herra Bennett með flensu og komst ekki. 

Í Evrópuferðinni á hótelinu fengu þau að prófa það besta sem mörg lúxushótel í Evrópu hafa upp á að bjóða. Þau fengu sérstök vegabréf sem voru stimpluð og fengu mat og drykki sem eru einkennandi fyrir áfangastaði í Evrópu. 

Þrátt fyrir að hafa fengið nasasjón af Evrópu í Washington stefna brúðhjónin enn á að fara í 30 daga Evrópureisu. Nú er stefnan sett á árið 2021. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert