Lætur ekki kórónuveiruna stoppa sig

Eva H Baldursdóttir á ferðalagi um Spán nýverið.
Eva H Baldursdóttir á ferðalagi um Spán nýverið. mbl.is/skjáskot Instagram
Eva H. Baldursdóttir lögmaður og jógakennari var að koma heim frá Spáni þar sem hún ferðaðist um í húsbíl. Hún keyrði um fjöll og strandir Katalóníu og Valencia og dvaldi meðal annars í sjamanísku þorpi.
Hvenær ákvaðstu að fara út og hvernig var ferðalagið?
„Ég ákvað það með frekar stuttum fyrirvara, eða þremur vikum áður en ég lagði af stað.  Upphaflega stóð til að fara á regnbogasamkomu en það var of mikil keyrsla og þá tókum við ákvörðun um að þræða strendur og fjöllin í kring.“ 
Hvað fór í gegnum hugann áður en þú ákvaðst að fara af stað?
„Mér finnst þetta spennandi tími til að ferðast og áhugavert að sjá hvernig staðan væri á Spáni. Ég fann ekki fyrir hræðslu vegna kórónuveirunnar. Dauðinn og veikindi eru góðir kennarar. Kenna manni að meta lífið betur, lifa með opið hjarta og iðka þakklæti. Þar fyrir utan eru líkindin á því að deyja úr kórónuveirunni minni en að deyja úr flestu öðru. Það er gott að fara eftir reglum og virða tilmæli, virða aðra, en lifa lífinu lifandi eins og við kjósum innan þess ramma. Í Bókinni um veginn er góð setning sem segir „ef þú hræðist ekki dauðann er ekkert sem þú getur ekki áorkað“ og í bók Micheals Singers The unthethered Soul er afskaplega góður kafli um dauðann sem ég hef lesið oft og mörgum sinnum. Dauðinn er ekki endir nema á þessari persónu, ef við trúum því og höfum trú á æðri mátt er það meira frelsi. Ótti er fangelsi að mínu mati og gott að frelsa sig frá þeirri sköpun hugans eins mikið og hægt er.“ 
Hvað varstu að gera úti?
„Ég ferðaðist um strendur Katalóníu og Valencia-héraðs í Campervan-húsbíl. Ég fór einnig til Baskalands og var tvo daga í San Sebastian. Ég fór í sjamanísk þorp í Valencia þar sem við vorum í tipi sem er indíánatjald. Þannig bjuggu indíánar yfirleitt  í færanlegu tipi.“
Tipi - indjánatjald í shaman þorpi í Valencia.
Tipi - indjánatjald í shaman þorpi í Valencia.
Hvað heillar þig við Spán?
„Það sem heillar mig er sól, hiti, spænska, Miðjarðarhafsmatur og fjölbreytt landslag. Ég elska Suður-Evrópu, Spán og sígaunalíf. Mér finnst menning landsins líka heillandi. Að borða seint á kvöldin, vera rólegri yfir daginn og svo er aðeins meiri eldur í hjartanu hjá spænskumælandi fólki almennt. Meiri ástríða. Ég kann vel við það.“ 
Hvað þýða ferðalög í þínum huga?
„Þau merkja skemmtun og frelsi. Mér finnst mjög gaman að ferðast. Rannsaka og upplifa eitthvað nýtt. Það er ákveðið frelsi að vera á stöðum þar sem enginn þekkir mann. Ég ferðast líka mikið inn á við, sem er ekki síðra ferðalag. Sjálfsrannsóknin er stærri og merkilegri. Að skilja tilveruna og mennskuna. Stundum er það meiri áskorun að fara ekki neitt og þurfa að sitja með sér eins og við erum að upplifa núna en það skilar okkur sterkari til baka tel ég.“
Mathias ferðafélagi Evu fyrir framan bílinn sem þau ferðuðust í.
Mathias ferðafélagi Evu fyrir framan bílinn sem þau ferðuðust í.
Hvernig nærir þú líkama og sál daglega?
„Ég hugleiði á hverjum degi. Éég les andlegt lesefni á hverjum degi og fer með jákvæðar staðhæfingar. Þá finnst mér mjög nærandi að vera með öllu mínu góða fólki, hvort sem það eru vinir til skemmri eða lengri tíma. Ég hreyfi mig talsvert, aðallega jóga þessa dagana og göngutúrar.“ 
Hver eru verkefni haustsins?
„Ég ætla að leggjast í vinnu og er að stofna fyrirtæki sem ég þarf að sjá hvert alheimurinn ætlar með. Vinnan mín er fjölbreytt og ég geri alls konar skemmtilegt þannig að ég upplifi oft að ég sé að svindla. Ég er með ýmsar hugmyndir að verkefnum sem mig langar að sjá verða að veruleika og ýmis verkefni eins og bók á borðinu. Eins stefni ég á að verða betri í tónlist.“
Eru fleiri ferðalög á döfinni?
„Ég stefni á að fara í viðbótarnám í tónlist og að vinna með mismunandi hljóðfæri sem við notum í athöfnum. Þetta ætla ég að gera í Gvatemala í janúar á næsta ári ef það verður enn hægt að fara og boðið verður upp á námið.“
Sólsetur við La Fontcalda - Terra Alta í katalónskum fjöllum.
Sólsetur við La Fontcalda - Terra Alta í katalónskum fjöllum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert