Staðirnir sem eiginmaður prinsessunnar elskar

Eiginmaður Beatrice prinsessu er mikill heimsborgari.
Eiginmaður Beatrice prinsessu er mikill heimsborgari. AFP

Viðskiptamaðurinn Edoardo Mapelli Mozzi opnaði sig í nýju viðtali við Financial Times á dögunum. Þar sagði hann að sinn eftirlætisstaður í heiminum væri fornborgin Petra í Jórdaníu.

„Ég heimsótti eitt sinn rósaborgina árla morguns áður en fleiri ferðamenn komu og ég varð orðlaus. Ég man enn þá hvernig ljósið skein á bleikan kalksteininn. Það er erfitt að ná utan um það hvernig byggingarnar, sem eru frá 300 f. Kr., voru byggðar án allra tækja. Ég fór aftur að kvöldi til og sá borgina aftur í kertaljósi. Þetta var töfrum líkast,“ sagði Mapelli Mozzi.

Í viðtalinu sagði hann líka að ef hann hefði allan frítíma í heiminum myndi hann nýta hann í að ferðast. „Afríka heillar mig stöðugt: fólkið, litirnir, náttúran og hógværð fólksins. Ég held ég hafi ekki heimsótt meira en 25% af álfunni, þannig að ég væri til í að sjá meira og læra meira. Bróðir minn og ég eyddum sjö árum í að byggja krikketvöll í Kigali í Rúanda, og við njótum þess mjög að sjá hann notaðan,“ sagði Mapelli Mozzi.

Fornborgin Petra í Jórdaínu er eftirlætisstaður Edoardo Mapelli Mozzi.
Fornborgin Petra í Jórdaínu er eftirlætisstaður Edoardo Mapelli Mozzi. AFP

Hann hefur einnig eytt miklum tíma í Keníu og er uppáhaldsútsýnið hans við bústað í Lamu. „Það er 12 kílómetra löng strönd fyrir framan húsið og hún breytist á hverjum degi. Stundum er sjórinn langt langt í burtu og stundum eru miklar öldur. Það eru engin ljós á kvöldin en þar sem þetta liggur á miðbaugnum sér maður milljarða stjarna á himninum og tunglið lýsir allt upp. Við segjum „engir skór, engar fréttir“ þegar við erum þar. Það er ekki 3G-samband þarna og ekkert rafmagn í húsinu nema frá sólarsellum og vatnið fáum við úr okkar eigin brunni. Ég kem þangað, sef í tvo daga og þá byrjar heilinn í mér að virka aftur,“ sagði Mapelli Mozzi. 

Mozzi sagði einnig að ef hann mætti bara versla í einu hverfi í einni borg það sem eftir væri ævinnar myndi hann velja 6. og 7. hverfi í París. Hann gaf einnig meðmæli með veitingastað við Amalfi-ströndina á Ítalíu, Ristorante Da Adolfo. 

„Það er pínulítill kofi á ströndinni sem maður kemst bara að með bát, en það er mjög erfitt að bóka borð þar. Maturinn er sá besti í heiminum og kræklingasúpan er mögnuð. Heillandi staður. Vínið kemur á boðið með ferskjum og diskarnir eru handmálaðir í klassískum Amalfi-stíl. Góður matur og fjölskylda, hvað þarf maður meira?“ sagði Mapelli Mozzi.

Beatrice og Edoardo Mapelli Mozzi.
Beatrice og Edoardo Mapelli Mozzi. mbl.is/AFP PHOTO / BUCKINGHAM PALACE / PRINCESS EUGENIE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert