Býður í háleynilega ferð á fertugsafmælinu

Kim Kardashian er fertug.
Kim Kardashian er fertug. AFP

Raunveruleikaþáttastjarnan Kim Kardashian er sögð ætla að halda upp á fertugsafmælið sitt með því að fara á einkaeyju eða á lúxushótel með fjölskyldu og vinum. Stjarnan varð fertug í dag, miðvikudaginn 21. október. 

Gestir hennar eru sagðir fara í ferðina í byrjun næstu viku að því er fram kemur á vef Page Six. Í kringum 30 manns er boðið en fá ekki að vita hvert þeir eru að fara fyrr en komið er í einkaþotuna.

Heimildarmaður slúðurmiðilsins segir að gestirnir séu nú þegar búnir að fara í kórónuveirupróf. Þeir verða svo prófaðir aftur um helgina. 

„Eina sem gestirnir vita er hvenær þeir verða sóttir fyrir flugið og hvenær þeir fara frá Los Angeles í byrjun næstu viku. Áfangastaðnum er haldið leyndum af öryggisástæðum,“ sagði heimildarmaðurinn og telur fólk líklegast að það sé á leiðinni til Bora Bora eða eyju í Karíbahafinu.

Systur og móðir Kim Kardashian fá boð í afmælið.
Systur og móðir Kim Kardashian fá boð í afmælið. AFP
mbl.is