Gönguleið vikunnar: Seltún - Arnarvatn

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur er höfundur greinarinnar.
Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur er höfundur greinarinnar.

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar sem er 5 km ganga sem tekur einn og hálfan tíma til tvo tíma að ganga og er erfiðleikstigið 2 á skalanum 1-5. Leiðin er Seltún -Arnarvatn. 

Hverasvæðið Seltún er staðsett um 40 mínútna akstur frá Reykjavík, við suðvesturenda Kleifarvatns á Reykjanesi. Aksturinn frá höfuðborginni er upplifun útaf fyrir sig, eftir að komið er í gegnum Vatnsskarð. Vegurinn hlykkjast um stórkostlegt landsvæði sem er furðuleg blanda af aðlaðandi svörtum sandströndum og girnilegum grænum lautum og svo skuggalegum móbergsmyndunum og draugalegri jarðhitagufu sem minna mann á að hér er landið okkar unga með vaxtaverki og það þarf ekki mikið til að það teygi sig og hristi. Það er hollt að láta minna sig á að það er náttúran; jörðin sem stjórnar okkur, en ekki við sem stjórnum henni, þegar öllu er á botninn hvolft.

Það fer ekki á milli mála þegar komið er að Seltúni. Þar rjúka gufustrókar úr hverum, líkt og stórtæk skýjaverksmiðja reki þar starfsemi sína. Veglegt bílastæði tekur á móti manni, sem alla jafna er fullt af bílaleigubílum, rútum og ferðamönnum.

Einu sinni var þarna mikil athafnastarfsemi og brennisteinsvinnsla í blóma. Því miður koma hvorki inn gjaldeyristekjur af brennisteini né ferðamönnum þessa dagana. Það býr þó til meira pláss fyrir okkur sem hér búum, til að njóta.

Gengið er upp Ketilsstíg. Auðvelt er að koma auga á göngustíginn sem er merktur með skilti sem stendur við landvarðarhúsið. Leiðin liggur upp aflíðandi brekku að Arnarvatni. Stígur þessi var fjölfarinn um miðja 19. öld þegar brennisteinsvinnsla var á svæðinu. Þá lá hann yfir Sveifluháls norðan Arnarvatns og síðan um Hrauntungustíg til Hafnarfjarðar, og var flutningsleiðin fyrir brennisteininn.

Tilvalið er að staldra við hjá Arnarvatni og njóta fagurs útsýnis. Þaðan má meðal annars sjá Stóra- og Litla- Lambafell, Austurengjahver sem er aflmesti gufuhver Reykjanesskagans og Arnartind sem er hæsti tindur Sveifluhálsins. Á meðan við nutum landslagsins hristist jörðin af eftirskjálftum meginskjálfta dagsins og drunur skriðurfalla fylgdu í kjölfarið þetta stórskjálftasíðdegi, 20. október síðastliðinn.

Í logni síðdegissólarinnar staðfesti Veðurstofan síðar að skjálfti, 5,6, hefði riðið yfir fyrr um daginn og við fundum svo sannarlega fyrir eftirköstunum af á göngunni. Það fór ekki fram hjá okkur að stórir grjóthnullungar höfðu fallið í skriðum umleikis í stóra skjálftanum fyrr um daginn. Það var ekki laust við að maður yrði á vettvangi frekar lítill í sér í annars stórbrotinni náttúru skagans við þá sjón.

Frá norðanverðu Arnarvatni liggja leiðir til allra átta, s.s. til norðvesturs að Katlinum með framhald að Hrauntungustíg, til suðurs að Hettuvegi yfir að Vigdísarvöllum, til norðurs um Folaldadali - en hringurinn sem við lýsum hér, fer með okkur hálfhring um vatnið og að frábærasta útsýnisstaðnum af þeim öllum, hvernum Pýni austan Baðstofu. Leiðin aftur niður að Seltúni er brött á köflum, og þar þarf að fara varlega því undirlagið er laust í sér, hér getur veri gott að hafa með sér göngustafi.

Í lok göngunnar er tilvalið að rölta um veglega stíga háhitasvæðisins í Seltúni og hlusta á hviss og bubbl hveranna er eiga sér þá íslenskulegustu lykt sem til er og njóta litadýrðarinnar sem gefur Landmannalaugum og Sogunum sunnan Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi lítið eftir.

Njótið útivistarinnar

Búnaður: Gönguskór, hlífðarfatnaður í samræmi við veður + göngustafir.

HÉR getur þú skoðað leiðina. 

HÉR getur þú séð leiðina að Seltúni í gegnum Google Maps. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert