Meiri áhætta að fara út í búð en í flug

Margþættar aðgerðir til að koma í veg fyrir smit um …
Margþættar aðgerðir til að koma í veg fyrir smit um borð í flugvélum hafa skilað árangri. AFP

Það eru meiri líkur á því að smitast af kórónuveirunni úti í búð eða á veitingastað heldur en um borð í flugvél að því er fram kemur í nýrri rannsókn frá Harvard T.H. Chan háskóla í Bandaríkjunum. 

Rannsóknin var hluti af Aviation Public Health Initiative (APHI) sem rannsakar hvaða áhrif flug, flugvélar hafa á heilsu almennings á tímum kórónuveirunnar. 

Í rannsókninni sem var verið að gefa út er einblínt smithættu þegar farþegi er kominn um borð og þangað til hann fer aftur frá borði. Ekki er tekið tillit til þess hvernig för farþegans er til flugvallarins, í gegn um flugvöllinn eða þegar hann fer aftur til baka.  

Þar er fjallað um hvernig flugfélög beita margþættri aðferð við að koma í veg fyrir smitleiðir. Aðferðirnar eru fimm og þar ber fyrst að nefna öflug loftræstingarkerfi, grímunotkun, nýjar öflugri aðferðir við að sótthreinsa snertifleti og skimun þar sem kannað er hvort farþegar hafi upplifað einkenni síðustu daga. Síðast en ekki síst er betri upplýsingjagjöf til farþega um hvernig megi draga úr smithættu.

Síðan þessar aðferðir voru teknar upp á vormánuðum hafa verið fá smit um borð í flugvélunum sjálfum að því er fram kemur í rannsókninni. 

„Þessi margþættu aðferðir, með góðri loftræstingu, minnkar hættuna á að SARS-CoV-2 smitist um borð í flugvél og gerir hana minna áhættusamari heldur en hversdagslega hluti í heimsfaraldrinum eins og búðarferðir og að fara út að borða,“ segir í útdrætti rannsóknarinnar. 

Rannsakendur taka þó fram að þar til bóluefni finnist verði hætta á smiti í hverjum krók og kima samfélagsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina