Vísað frá borði eftir rasísk ummæli

Atvikið átti sér stað um borð í vél JetBlue.
Atvikið átti sér stað um borð í vél JetBlue.

Hvítum karlmanni var vísað frá borði í vél JetBlue á dögunum eftir að hann lét rasísk ummæli falla um samferðamenn sína. 

Karlmaðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, missti sig í bræðiskasti eftir að hann sá að ekki var pláss fyrir handfarangur hans fyrir ofan sætin. Hann byrjaði þá að ausa úr skálum reiði sinnar yfir hina farþegana. 

Síðan átti hann í orðaskaki við svarta konu um sætisskipan um borð og fór þá að nota rasísk ummæli um hana. 

Farþegar tóku margir hverjir myndbönd af atferði mannsins. Atvikið átti sér stað 20. október í flugi JetBlue frá Jamaíku til New York í Bandaríkjunum.

Þegar honum var vísað frá borði sagði hann að konan hefði sett hnéð í magann á sér. „Hringið í andskotans lögregluna núna, ég veit þú sást þetta,“ öskraði karlmaðurinn í myndbandi sem twitternotandinn KING_MEKA setti inn. „Afsakaðu mig, ég er að hluta til frá Vestur-Afríku, ég má segja negri hvenær sem ég vil,“ sagði karlmaðurinn.

Starfsfólk vélarinnar reyndi að róa manninn niður en á endanum brutust slagsmál út. Þá var lögreglan kölluð til og honum vísað frá borði. Í myndbandi sem annar farþegi tók má sjá manninn í haldi lögreglu á leið í gegn um flugvöllinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert