„Við eyðum aldrei frí­tíma okk­ar í borg­inni“

Halla Líf Hjálmarsdóttir fer í kaldan íslenskan sjóinn á brimbretti. …
Halla Líf Hjálmarsdóttir fer í kaldan íslenskan sjóinn á brimbretti. Hér er hún með brettið í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Ingimar Þórhallsson

Halla Líf Hjálmarsdóttir er 24 ára gömul ævintýrakona sem veit fátt betra en að vera á brimbretti og snjóbretti. Dagsdaglega rekur hún búðina Nomad á Laugaveginum með kærasta sínum Ingimar Þórhallsson. Parið nýtir allan frítíma sem gefst til að fara út á land. 

Halla þakkar foreldrum sínum áhugann á útivist og náttúru Íslands. Þegar það voru skólafrí var fjölskyldan rokin út á land. 

„Við vorum mjög dugleg að fara í útilegur á sumrin. Ég var eiginlega ekkert í höfuðborginni, við fórum hringinn og eltum sólina út á land. Þegar maður varð unglingur nennti maður ekki að ferðast jafn mikið með foreldrum sínum en þá fór maður bara að ferðast sjálfur. Einhvern veginn þróaðist þetta yfir í að skoða nýja staði sem ég hef ekki séð áður.“

Halla og Ingimar kærasti hennar deila áhuganum á ferðalögum. Hann er ljósmyndari og myndar mikið á ferðalögum þeirra. Á meðan leitar hún að snjó í fjöllunum til þess að renna sér á snjóbretti eða að öldum til þess að fara á brimbretti á. 

„Þegar við kærastinn minn erum ekki í búðinni okkar að vinna þá förum við út úr borginni. Við eyðum aldrei frítíma okkar í borginni nema það sé eitthvað vinnutengt og við þurfum að vera á svæðinu,“ segir Halla en þau eru á breyttum Land Cruiser-jeppa sem kemst yfir ár, upp fjöll og erfiða vegi. „Við erum óstöðvandi á þessum bíl.“

Halla við varðeld á Vestfjörðum. Hún og Ingimar kærasti hennar …
Halla við varðeld á Vestfjörðum. Hún og Ingimar kærasti hennar fara út úr bænum eins oft og þau geta. Ljósmynd/Ingimar Þórhallsson

Hélt áfram að fara á brimbretti á Íslandi

„Ég byrjaði á snjóbretti þegar ég var 14 ára. Ég fékk einhverja flugu í höfuðið og bað um snjóbretti. Foreldrar mínir skildu þetta ekki alveg en ég féll strax fyrir þessari íþrótt. Þá fékk ég einhverja hugdettu að prófa brimbretti. Ég hafði verið að leika mér á hjólabretti en það gekk ekkert rosalega vel.“

Halla tók af skarið þegar hún var 19 ára og fór í brimbrettaskóla eftir að upp kom auglýsing hjá henni á Facebook um tveir-fyrir-einn-tilboð hjá brimbrettaskóla í Marokkó. Hún hringdi í vinkonu sína og tilkynnti henni að þær væru a leiðinni til Marokkó. Þremur vikum seinna voru þær mættar í brimbrettaskólann. 

„Ég fer síðan til Asíu og keypti mér bretti á Balí. Ég var þar í sex vikur og var eiginlega á hverjum degi á brimbretti. Ég varð hrifin af þessu sporti þar. Ég vildi ekki skilja brettið mitt eftir úti og fann leið til þess að flytja það heim. Ég held að ég hafi keypt pláss fyrir barnavagn einn legginn og golfpoka hinn. Ég náði þannig að lauma brettinu með mér heim. Ég pantaði síðan blautgalla á netinu og skellti mér í Þorlákshöfn og byrjaði að sörfa hérna heima. Það er bara alveg jafn gaman og úti, jafnvel aðeins erfiðara hérna heima af því að þú ert í svo þykkum búningi sem þyngir þig aðeins. Kaldi sjórinn er svo æðislegur, hann er svo frískandi og maður kemst í frí frá öllu öðru á meðan maður er að leika sér í sjónum.“

Eftir að kórónuveiran skall á hefur hún séð fleira fólk á brimbretti á Íslandi. Fólk kemst ekki til útlanda í heitan sjó og segir Halla að hún þekki nokkra sem létu verða af því að kaupa sér bretti og panta sér blautgalla. 

„Maður þarf svolítið að þekkja til og vera í vinahópi sem stundar þetta. Það er bæði skemmtilegra og öruggara að vera með einhverjum þegar maður er að fara út í sjóinn ef eitthvað kemur upp á,“ segir Halla. Það eru til ýmis smáforrit sem spá um öldur en það kemur fyrir að Halla og aðrir brimbrettakappar fari fýluferðir sem hún segir bara vera hluta af sportinu. Hún fer oftast í Þorlákshöfn enda stutt að fara þangað úr bænum. 

Fór á hálendið í sumar

Halla er að jafna sig eftir tvær axlaraðgerðir. Hún var því ekki mikið í sjónum í sumar en fór í staðinn í skemmtilegar ferðir upp á hálendið. 

„Ég fór í Landmannalaugar og inn í Öskju. Það var mikið ævintýri, mikil keyrsla á mjög erfiðum vegum. Þetta var löng keyrsla en alveg þess virði. Maður sér alveg nýja hluti, nýja staði á Íslandi sem líta bara ekkert út eins og Ísland. Það er svolítið eins og að vera komin á nýja plánetu þegar maður fer þarna upp. Svo fór ég líka norður á Mývatn tvisvar eða þrisvar í sumar. Ég prufaði að fara í Jarðböðin á Mývatni sem var alveg æðislegt. Ég fór líka í Sjóböðin á Húsavík, ég mæli með þeim.“

Halla á ferðalagi í Landmannalaugum.
Halla á ferðalagi í Landmannalaugum. Ljósmynd/Ingimar Þórhallson

Halla fór í ferðalag um Vestfirði í vor sem var mikil upplifun. Þau Ingimar voru nánast bara ein í náttúrunni með dýrunum. Þau stefna á að fara aftur í vetur og sjá Vestfirðina í vetrarbúningi. Hún vonast auk þess til þess að komast inn í Kerlingarfjöll áður en það verður ófært. 

Þrátt fyrir að Halla sé ánægð í íslenskri náttúru og íslensku landslagi langar hana að komast til útlanda og sjá heiminn. Hún hefur ferðast mikið um Suðaustur-Asíu og farið nokkrum sinnum til Marokkó. Hún á þó eftir stóran hluta af Bandaríkjunum. Fyrst á dagskrá er hins vegar að klára Asíu og verður brimbrettið þá ekki langt undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert