Ísland „skapað fyrir félagslega fjarlægð“

Ferðamönnum hefur fækkað verulega hérlendis vegna kórónuveirufaraldursins.
Ferðamönnum hefur fækkað verulega hérlendis vegna kórónuveirufaraldursins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sumir staðir virðast bara henta betur í heimsfaraldri en aðrir,“ segir í frétt ferðamiðilsins Travel + Leisure um Ísland. Þar er landið sagt „skapað fyrir félagslega fjarlægð“ og það ætti að vera efst á lista yfir lönd sem bjóða upp á áfangastaði þar sem auðvelt er að halda fjarlægð á.

„Á Íslandi er að finna séríslensk hótel og aðra dvalarstaði þar sem er auðvelt að njóta sóttkvíar í lystisemdum á gróðursælum og víðáttumiklum svæðum,“ segir í fréttinni. Þar er rætt við Friðrik Pálsson, eiganda hótel Rangár, lúxushótels á Suðurlandi. 

„Margir ferðaþjónustuaðilar voru á móti sýnatöku við landamærin en ég held að það sé gott mál. Flestir ferðamenn eru hrifnir af því, þeir koma hingað vegna þess að við erum að gera allt sem við getum til að halda landinu veirufríu,“ sagði Ragnar. 

Segir kjörið að ferðast til Íslands nú

Jamie Carter, sem skrifar fréttina, ferðaðist hingað fyrir skemmstu og ber landi og þjóð góða sögu. „Í vikudvöl á Íslandi þurfti ég aðeins að vera með grímu á flugvellinum og í 30 mínútna ferjuferð til að skoða lunda við paradísareyjarnar Vestmannaeyjar.“

Carter segir það að ferðast til Íslands nú sé kjörið. Landið sé nánast laust við ferðamenn og öruggt. Sóttkvíin sem ferðamenn þurfi að fara í á milli fyrstu og annarrar sýnatöku geti þó sett strik í reikninginn fyrir einhverja. 

Í fréttinni, sem birtist í gær, er þó hvergi minnst á hertar sóttvarnaaðgerðir hérlendis eða háa nýgengi smita sem nú stendur í 213,3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert