Hvetja fólk til að fara á fjall daglega

Hópurinn Fjallastelpur á Facebook er umræðuhópur sem ætlað er að hvetja konur til dáða og að ná útivistarmarkmiðum sínum á eigin forsendum. Fjallastelpur láta sitt ekki eftir liggja þegar kemur að hvatningu og er hópurinn nú með tvö verkefni í gangi. Annars vegar að hvetja konur til að fara út í náttúruna með prímusinn sinn og borða úti og hins vegar að labba á eitt fjall á dag. 

„Það er svo gaman að elda úti og þar er líka auðvelt að halda fjarlægðarmörk. Ég hef því getað boðið fjölskyldunni minni og vinkonum út að borða á uppáhaldsveitingastaðinn minn, sem er að sjálfsögðu náttúran. Það eina sem þarf eru hlý föt og ágætur prímus,“ segir Vala Húnbogadóttir, einn af stofnendum Fjallastelpna, og bætir við:

„Hugmyndum að uppskriftum deilum við á Instagram og er hægt að finna þær allar á instagramsíðu Fjallastelpna og undir myllumerkinu #útaðborða,“ segir hún.

„Hitt verkefnið sem við vorum að hefja í dag er verkefnið #30á30 sem varð til þegar Sara fór að rifja upp persónuleg markmið síðasta árs. Í nóvember á síðasta ári setti hún sér það markmið að ganga á 30 fjöll á 30 dögum. Eitt fjall á dag út nóvember. Sum fór hún einu sinni en önnur oftar. Aðalmálið var að njóta náttúrunnar og stunda daglega hreyfingu á fjöllum,“ segir Vala. 

Í ár langaði Söru Björgu Pálsdóttur, sem er ein af Fjallastelpum, að endurtaka leikinn og fá sem flesta með sér í lið.

„Verkefnið gengur út á það að stunda daglega hreyfingu á fjöllum og fellum í 30 daga. Fjöllin þurfa ekki að vera há né kílómetrarnir margir. Aðalmálið er að njóta náttúrunnar og ferska loftsins. Klæða sig eftir veðri og rækta líkama og sál í okkar næsta nágrenni. Ef veður spillist og maður kemst ekki upp á fjall, þá er það bara allt í góðu. Þá er hægt að fara í stuttan göngutúr um hverfið sitt eða taka tvo tinda næsta dag. Það er allt í boði,“ segir Sara.

Hópurinn Fjallastelpur er mjög lifandi og hefur reynst þeim sjálfum og öðrum mikil hvatning.

„Konurnar í hópnum eru okkar fyrirmyndir og hafa samfélagsmiðlar reynst góður vettvangur til að veita hver annarri innblástur og hvatningu. Nú þegar stunda margir sína hreyfingu utandyra og deila því á samfélagsmiðlum og höfum við séð marga einstaklinga ná ótrúlega flottum markmiðum síðustu vikur, sem er virkilega hvetjandi,“ segir Sara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert