Nýtt flugfélag kynnt til leiks – Mom Air

Mom Air var kynnt til leiks í dag.
Mom Air var kynnt til leiks í dag. Ljósmynd/Mom Air

Nýtt flugfélag spratt upp á samfélagsmiðlum í dag; flugfélagið Mom Air, sem lýsir sér sem ofur-lággjaldaflugfélagi. Mom Air virðist vera grínútgáfa af flugfélaginu Wow air, enda er nafnið Mom í raun Wow á hvolfi. Wow air varð gjaldþrota á síðasta ári. Mbl.is hefur heimildir fyrir því að um sé að ræða gjörning ónafngreinds listamanns.

Í fréttatilkynningu sem mbl.is barst um Mom air kemur fram að flugfélagið verði með höfuðstöðvar á Íslandi og farþegar verði fluttir til og frá landinu. Helstu áfangastaðir verða á meginlandi Evrópu og Bandaríkin. Einnig kemur fram að búið sé að tryggja langtímafjármögnun félagsins með samvinnu erlendra fjárfestasjóða og innlendra aðila.

„Mamma er hagsýn í fjármálum og rekstri. Öll þjónusta tengd fluginu verður valkvæð. Hvort sem það er mömmumatur, lesefni um borð, hleðsla fyrir raftæki, net, farangurspláss, salernispappír, handsápa, val á sætum og margt fleira. Þannig munum við brjóta blað í íslenskri flugsögu með lágu verði og þjónustu.

Að auki munum við bjóða upp á „fljótandi flug“ þar sem flugfarþegar geta skráð sig á tímabil og áfangastað, og fá svo tilkynningu með stuttum fyrirvara þegar sæti losnar. Þannig tryggjum við ávallt bestu sætanýtingu, sem skilar sér í umhverfisvænni og hagkvæmari ferðum.

TVÖ FRÍ sæti í hverri vél – fyrstu tvö sætin í hverri vél verða frí. Hægt verður að leita eftir frísætum í bókunarvélinni okkar.

Mamma leggur áherslu á jafnrétti með sérstakri áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Mamma ætlar að taka þátt í verkefnum sem kynna stúlkum fyrirmyndir og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum meðal annars sem flugkonur og stjórnendur.

Unnið hefur verið að stofnun félagsins í nokkra mánuði undir vinnuheitinu WRW, sem stendur fyrir „Who run the world“. Öll vinna á bak við félagið er byggð á reynslu og þekkingu sem skapast hefur í íslenskum flugiðnaði síðustu áratugi,“ segir í tilkynningunni. 

Ljósmynd/Mom Air

Vefsíða Mom Air er komin í loftið en bókunarvélin mun fara í loftið mánudaginn 9. nóvember samkvæmt tilkynningu og verður hægt að bóka flug frá og með 1. mars 2021. Einnig hefur Mom Air boðað til blaðamanna- og kynningarfundar hinn 11. nóvember klukkan 10:00. 

Í tilkynningunni kemur einnig fram að boðið verði upp á svokallað „covid- og noncovid-flug“. „Aðilar sem eru í sóttkví, smitaðir, útsettir fyrir smiti, eða eru með mótefni eftir smit mega ferðast saman. Vélarnar eru sérstaklega merktar og munu flugliðar þessara véla einungis vera einstaklingar með jákvæða mótefnamælingu.

mbl.is