Snæfríður býður upp á útlönd heim í stofu

Snæfríður Ingadóttir var að byrja með nýjan ferðaþátt á N4. …
Snæfríður Ingadóttir var að byrja með nýjan ferðaþátt á N4. Hann heitir Vegabréf.

Ferðaþátturinn Vegabréf, í umsjón fjölmiðlakonunnar Snæfríðar Ingadóttur, fór í loftið í gær á N4. Í þáttunum fær Snæfríður til sín góða gesti sem segja sögur af ferðalögum.

Er grundvöllur fyrir ferðaþætti í miðjum Covid-faraldri?

„Ég held að það sé full þörf á því að fólk fái smá útlönd inn í stofu. Eins og ástandið er núna er fólk farið að þyrsta í ferðalög. Þátturinn Vegabréf mun slá á ferðaþrána, eða kannski ýfist hún bara upp! Flestir eiga skemmtilegar ferðasögur í farteskinu. Og ferðalög eru svo miklu meira en ferðin sjálf. Það er undirbúningurinn og svo er hægt að rifja upp minningarnar aftur og aftur.“

Við hverja ertu búin að ræða?

„Ég talaði til dæmis við mann sem hefur búið í Sambíu og giftist fyrstu konunni sem hann talaði við þar. Svo ræði ég við konu sem hefur ferðast gríðarlega mikið, en hún er sjálf ferðaþjónustubóndi. Hún ferðast alltaf bara með handfarangur, hefur farið út um allt og lent í endalausum ævintýrum. Ég talaði líka við mann sem ferðast rosalega mikið í huganum.“

Voru þetta allt góðar sögur?

„Þetta eru bæði góðar og vondar sögur. Líka hrakfallasögur. Það er nú oft þannig að best lukkuðu ferðalögin lifa ekki endilega í minningunni. Oft er það vesen og vandræði sem gerir ferðina eftirminnilega. Einn viðmælandi segir til að mynda frá mjög misheppnaðri Parísarferð, sem átti að vera bæði óvænt og rómantísk en var hvorugt.“

Er þig farið að þyrsta í útlönd?

„Já, heldur betur! Á ég að segja þér hvað ég gerði um daginn? Ég borðaði jólamatinn af því ég er svo bjartsýn á að komast út til Kanaríeyja um jólin! Hamborgarhryggur og alles.“

Snæfríður hefur skrifað nokkrar ferðabækur. Hér er hún með bók …
Snæfríður hefur skrifað nokkrar ferðabækur. Hér er hún með bók sína um eyjuna Gran Canaria sem er við Afríkustrendur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert