Youtubestjörnu vísað frá borði fyrir óhlýðni

Atvikið átti sér stað um borð í vél American Airlines.
Atvikið átti sér stað um borð í vél American Airlines. AFP

Lögreglan í Dallas í Texas í Bandaaríkjunum þurfti að vísa tveimur konum frá borði vélar Amercian Airlines fyrir helgi. Ástæðan var sú að önnur þeirra hafði falið sig um borð og troðið sér til fóta hjá hinni. 

Að sögn annars farþega um borð ætlaði konan að vera þar allt flugið en þær voru að taka uppátækið upp fyrir youtuberás sína. 

Fyrir flugtak tók einn flugþjónanna eftir því að eitt sæti um borð var tómt þrátt fyrir að vélin ætti að vera full. Hún óskaði eftir því að viðkomandi farþegi gæfi sig fram og héldi til sætis síns undir eins. Eftir einhvern tíma reyndi konan að laumast aftur í sætið þegar ljóst var að vélin myndi ekki fara í loftið fyrr en hún fyndist.

Hún var gómuð á leið í sætið og vélin fór aftur að hliðinu. Þá reiddist vinkona þeirrar sem var gómuð og hóf að öskra ókvæðisorð að starfsfólki vélarinnar um að það væri verið að brjóta á réttindum vinkonu hennar. Þá tók hún af sér andlitsgrímuna.

Að sögn sjónarvotts sögðu bæði flugstjórinn og flugþjónninn konunni að hún þyrfti að fara frá borði en hún neitaði. Að lokum þurfti að kalla til lögreglu sem fylgdi konunum frá borði. Vélin tafðist alls um þrjár klukkustundir en áður en atvikið átti sér stað hafði vélin tafist um 90 mínútur eftir að matarbíll á flugvellinum klessti á farangursrýmishurðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert