Vilt þú móta framtíð ferðamennsku á Íslandi?

Gullfoss.
Gullfoss. mbl.is/Kristinn Magnússon

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs leita að hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem ber vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu

Markmiðið með Fyrirmyndaráfangastöðum er að skapa umgjörð utan um hugmyndafræði heildstæðrar nálgunar í áfangastaðastjórnun svo uppfylla megi eftirfarandi sýn:

  • Á Fyrirmyndaráfangastöðum fær náttúrufegurð að njóta sín og umhverfisstjórnun er til fyrirmyndar út frá áherslum sjálfbærrar þróunar þannig að framtíðarkynslóðir geti notið þeirra um ókomna tíð.
  • Fyrirmyndaráfangastaðir eru drifkraftur fyrir svæðisbundna þróun og hvetja til samstarfs og samhæfingar á svæðum. Uppbygging þeirra ýtir undir lengri dvöl og skapar þannig viðskiptatækifæri og efnahagslegan ávinning fyrir nærumhverfið. 
  • Fyrirmyndaráfangastaðir styðja við stefnu stjórnvalda í ferða-, umhverfis-, menningar- og samgöngumálum og styðja auk þess við nýsköpun og stafræna stjórnsýslu.

Megináhersla í áfangastaðastjórnun hingað til hefur verið á verndun náttúru í ljósi aukins álags vegna ferðamanna og aukið öryggi. Halda þarf áfram á þeirri braut en með nýrri heildstæðri nálgun sem eykur einnig upplifun og upphefur staðaranda. Fyrirmyndaráfangastaðir eiga enn fremur að stuðla að jákvæðri ímynd Íslands með áherslu á sjálfbærni, verndun náttúru og menningararfs, öryggi og upplifun.

Markmið í hönnun og útfærslu verkefnisins er að:

  • Skapa ásýnd verkefnisins og að einkenni Fyrirmyndaráfangastaða verði þekkt merki innanlands sem utan. 
  • Að ferðamenn geti auðveldlega fundið upplýsingar um staði sem eru Fyrirmyndaráfangastaðir eða eru í umsóknarferli, og um verkefnið.
  • Merkið verði jákvæð hvatning til staðarhaldara og nærumhverfis.

Verkefnið er að hanna og útfæra myndrænt einkenni, nafn/heiti (íslenska & enska), áferð og tón í samstarfi við verkefnahóp ráðuneytanna tveggja.

Nánar á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert