Það er lítil eftirspurn eftir djamm-skíðaferðum

Jóhann Pétur Guðjónsson hjá GB ferðum er farinn að skipuleggja …
Jóhann Pétur Guðjónsson hjá GB ferðum er farinn að skipuleggja skíðaferðir vetrarins.

Jóhann Pétur Guðjónsson, einn af eigendum GB ferða, er ekki af baki dottinn þótt kórónuveiran geisi. Hann bíður spenntur eftir að komast í skíðaferð til Andermatt í Sviss og segir að lítil eftirspurn sé eftir djamm-skíðaferðum. Í Andermatt er nýtt og öflugt skíðasvæði fyrir þá sem gera kröfur. 

Þegar Jóhann er spurður hvernig skíðasvæðið í Andermatt sé frábrugðið öðrum skíðasvæðum segir hann að það bjóði upp á mikil gæði. 

„Andermatt er frábært skíðasvæði og snjóöryggi með því mesta í Evrópu. Tímabilið er óvenjulangt miðað við önnur svæði í Evrópu eða frá lokum október til maí. Bærinn liggur hátt, í 1.447 metra hæð yfir sjávarmáli, og skíðabrekkurnar teygja sig upp í tæpa 3.000 metra. Auk þess að vera stórt og fjölbreytt skíðasvæði er mikil fjölbreytni í mat og drykk. Einnig er frábær aðstaða fyrir gönguskíði í Andermatt. Rúsínan í pylsuendanum er að ferðalagið frá Zürich-flugvelli er aðeins 90 mínútur,“ segir Jóhann. 

Hægt er að gera vel við sig með því að …
Hægt er að gera vel við sig með því að gista á Andermatt Alpine Apartments í Sviss.

Aðilar í ferðaþjónustu kvarta mikið yfir því að kórónuveiran hafi farið illa með fyrirtæki á því sviði. Jóhann segir að síðustu átta mánuðir hafi verið mjög erfiðir. 

„Síðustu átta mánuðir hafa verið erfiðir og algjört hrun á tekjuhliðinni. Við höfum skorið niður eins og við getum, en aðalmálið á svona tímum er að vinna vel í birgjum, endursemja, bæta við áfangastöðum og vörum og vera klár í slaginn þegar flug kemst í eðlilegt horf aftur. Við ætlum að bjóða sama verð og við gerðum í fyrra til Andermatt þrátt fyrir 20% veikingu krónunnar. Einnig ætlum við að bjóða 20.000 kr. afslátt á Radisson Blu fyrir þá sem geta framvísað vottorði um að viðkomandi hafi þegar fengið Covid-19 eða þurft að fara í sóttkví á árinu.“

Hvenær verður farið í þessa fyrstu ferð?

„Fyrsta ferðin er 3. janúar. Eftir það verða vikulegar brottfarir. Þetta verða 12 dagsetningar.  Ef vel gengur getum við auðveldlega bætt við ferðum út apríl,“ segir hann.  

Er fólk farið að vilja fá öðruvísi skíðaferðir en áður?

„Já, ég finn fyrir því. Fólk vill vandaða staði sem höndla fjölda betur en önnur svæði.  Það er lítil sem engin eftirspurn í þessar djammskíðaferðir, þar sem fólk hópast saman á einhverja flautubari eins og síld í tunnu. Okkar kúnnar ætla ekki að láta núverandi ástand stöðva sig í að bóka skíðaferð. Nú þegar hafa sex hundruð manns skráð sig á lista og vilja komast í skíðaferð hjá okkur í vetur. Í Andermatt hafa sóttvarnir aukist til muna. Það er grímuskylda í almenningssamgöngum, rútum, kláfum og lestum. Auk þess hafa þeir bætt við lyftum ásamt því að stækka flest útisvæði veitingastaða enda eiga flest smit sér stað innanhúss samkvæmt European Centre for Disease Prevention and Control. Það má því færa fyrir því rök að skíðaferðir, þar sem þú ert utanhúss stóran hluta dagsins og forðast mannþröng á öðrum tímum, teljist öruggur ferðamáti.“  

Hvað er það við þetta svæði sem þú fílar í botn?

„Það er einfalt svar við því. Ég fíla mest „off piste“-brekkurnar í Gemsstock og að fara ótroðnar slóðir niður fjöllin. Hinir sem vilja troðnar brekkur hafa 180 km til að leika sér á. Svo finnst mér æðislegt að fara á gönguskíði að morgni, brenna ca 2.000 kaloríum á tveimur klukkutímum, taka lunch í Swiss House og fara og renna mér á skíðum eftir hádegi og taka Aprés-lestina heim í lok dags með einn ískaldan,“ segir Jóhann.

Fegurðin er einstök í Andermatt í Sviss.
Fegurðin er einstök í Andermatt í Sviss. Peter Wormstetter/Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert