Jólasveinninn fékk sérstaka ferðaheimild

Jólasveinninn fær að ferðast þrátt fyrir heimsfaraldur.
Jólasveinninn fær að ferðast þrátt fyrir heimsfaraldur. REUTERS

Forsætisráðherra Ítalíu, Giu­seppe Conte, fullvissaði fimm ára gamlan dreng um að jólasveinninn mætti ferðast í ár þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hinn fimm ára gamli Tommaso var með áhyggjur af jólunum eftir að útgöngubann tók gildi á Ítalíu í byrjun nóvember. Drengurinn sendi forsætisráðherranum bréf. 

Í bréfinu bað Tommaso forsætisráðherrann að útbúa sérstakt vegabréf fyrir jólasveininn svo hann gæti gefið börnum úti um allan heim gjafir. Hann tók fram að jólasveinninn væri gamall og það væri hættulegt fyrir hann að fara inn á heimili fólks, sveinki væri hins vegar góður og myndi líklega nota grímu til þess að verja sig. 

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Í svari forsætisráðherrans kom fram að jólasveinninn væri kominn með heimild til þess að ferðast. 

„Hann getur ferðast út um allt og útdeilt gjöfum til allra barna. Hann staðfesti við mig að hann notar alltaf grímu og virðir fjarlægðarmörk til þess að verja sig og fólkið sem hann hittir,“ skrifaði forsætisráðherrann en bréfið og svarið hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Forsætisráðherrann benti á að það væri einnig gott ef sveinki gæti sótthreinsað hendur sínar eftir hverja heimsókn. 

„Ég læt þig hér með vita að það er óþarfi að láta jólasveininn vita í bréfi þínu til hans að þú hafi verið góður af því ég er nú þegar búinn að láta hann vita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert