Í flugbanni fyrir tiktokmyndband

Rob K má ekki fljúga með Spirit Airlines lengur.
Rob K má ekki fljúga með Spirit Airlines lengur. AFP

Tiktoknotandinn robkallday má ekki fljúga í tvö ár með flugfélaginu Spirit Airlines eftir að hann birti myndband um hvernig mætti komast hjá því að greiða aukalega fyrir handfarangur með flugfélaginu. 

Rob K birti mynbandið á samfélagsmiðlinum Tiktok hvar hann er með yfir 180 þúsund fylgjendur. Hann sýndi frá því í myndbandinu hvernig mætti breyta rafrænum flugmiða í símanum með einfaldri lausn þannig að miðinn sýndi 1 í staðinn fyrir 0 yfir fjölda handfarangurstaskna.

Spirit Airlines og fleiri lággjaldaflugfélög rukka farþega aukalega fyrir stærri handfarangurstöskur. 

Mynbandið bar titilinn „Spirit carry on hack“ en Rob K gaf það skýrt til kynna að hann hefði ekki prófað að nota það sjálfur. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann þyrfti að iðrast gjörða sinna. 

Hann birti seinna bréf sem hann fékk frá Spirit Airlines þar sem kom fram að hann væri kominn í flugbann með félaginu. Þar kom einnig fram að hann ætti möguleika á að sækja um afléttingu bannsins eftir tvö ár ef hann gæfi nógu góða ástæðu fyrir því af hverju ætti að taka hann af bannlistanum. 

En skaðinn er þó líklegast skeður fyrir Spirit Airlines þar sem myndbandið er enn í loftinu og er það komið með 2,7 milljón spilanir, 154 þúsund læk og 800 athugasemdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert