Hraðstefnumót í háloftunum

Það er ást í loftinu hjá Eva Air.
Það er ást í loftinu hjá Eva Air.

Taívanska flugfélagið EVA Air hefur stokkið á útsýnisflugsvagninn á tímum kórónuveirunnar. Það sem er þó nýtt hjá EVA Air er að nú er hægt að finna ástina í háloftunum. Með því nær flugfélagið að slá tvær flugur í einu höggi; svala ferðaþosta og hjálpa fólki að finna ástina. 

„Fljúgið! Ástin er í loftinu“ er slagorð herferðarinnar sem er miðuð að einhleypu fólki í leit að ástinni. Útsýnisflugið tekur þrjár klukkustundir og er flogið frá Taipei-flugvelli. 

Þeir sem skrá sig í flugið fá úthlutað sæti við hliðina á ókunnugri manneskju. Þeir eru svo hvattir til að spjalla við sessunaut sinn og kynnast betur á meðan hringsólað er yfir Taívan.

Þrjár ferðir eru á dagskrá; á jóladag, gamlársdag og nýársdag. Jólaflugið er nú þegar uppselt en 40 miðar eru seldir eru í hverja vél, 20 til kvenna og 20 til karla. Ekki kemur fram hvort hinsegin fólk má bóka sig í flugið.

Stefnumótaflugið er ekki alveg fyrir alla, því fólk þarf að vera með háskólagráðu og taívanskan ríkisborgararétt. Þar að auki mega konur aðeins vera á aldrinum 24 til 35 ára og karlar 28 til 38 ára.

mbl.is