Þetta þarftu að vita fyrir Tenerife-ferðina

Sólað sig á Tenerife á Spáni.
Sólað sig á Tenerife á Spáni. AFP

Ferðaskrifstofan VITA býður upp á ferðir í sólina þessi jólin og er meðal annars með ferðir bæði til Kanarí og Tenerife. Það er þó ekki einfalt að ferðast á veirutímum og nauðsynlegt að vinna heimavinnuna fyrir ferðina. 

Sigvaldi Kaldalóns, betur þekktur sem Svali, er búsettur á Tenerife og tók saman góð ráð fyrir þá sem hyggjast skella sér til Tenerife um jólin. Nauðsynlegt er við komuna til landsins að framvísa neikvæðu Covid-prófi sem tekið er innan 72 klukkustunda fyrir komuna. 

„Ferillinn er nokkurn veginn svona. Pantaðu tíma á heilsugæslunni. Þeir þurfa síðan að panta tíma fyrir þig í Covid test. Ef það er um helgi þá þarf að fara á læknavaktina í Austurveri. Covid testið kostar ekkert en læknavaktin tók komugjald um 3.000 kr. og rúmar 5.000 kr. fyrir læknisvottorðið. Vottorðið þarf að vera á ensku eða spænsku.

Það sem koma þarf á læknisvottorðinu er eftirfarandi:

1. Nafn

2. Fæðingardagur

3. Vegabréfsnúmer

4. Hvar testið fór fram

5. Niðurstaða og hvers konar test var gert (PCR test)

6. Dagsetning og tímastning

7. Hvenær niðurstöður bárust úr testinu

8. Nafn læknis, staða hans, t.d. family medicine, sérgrein, símanúmer og tölvupóstur

9. Undirritun læknis og stimpill,“ skrifar Svali.

Á vefnum Hello Canary Islands er að finna mjög góðar upplýsingar um allt sem viðkemur sóttvarnareglum og takmörkunum. 

Gott er að sækja appið RadarCOVID sem er til bæði fyrir iPhone- og Android-stýrikerfi. Appið lætur þig vita af smithættu á hverju svæði fyrir sig. 

Grímuskylda er og þurfa fullorðnir og börn eldri en sex ára að vera með grímu utandyra og í lokuðum rýmum. Þetta á ekki við þegar fólk borðar, drekkur eða stundar líkamsrækt. 

Nándarreglan miðast við 1,5 metra og er fólk hvatt til að huga að persónulegum sóttvörnum. 

Veitingastaðir og skemmtistaðir eru opnir en á skemmtistöðum eru dansgólfin enn lokuð. Þá má ekki neyta drykkja við barinn en það má neyta þeirra sitjandi við borð. Opið er á veitingastöðum og skemmtistöðum til klukkan 23 á kvöldin.

Grímuskylda er við sundlaugar en það þarf ekki að vera með grímu ef maður liggur kyrr í sólbaði og er ekki í samskiptum við aðra. Nánari reglur um sundlaugar má finna á vef Hello Canary Islands.

mbl.is