Vildarpunktar Icelandair renna ekki út

Icelandair hefur ákveðið að framlengja vildarpunkta sem áttu að renna út í árslok um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Um er að ræða punkta sem söfnuðust árið 2017. Þetta gildir um þá aðila sem voru virkir félagar á árunum 2019 og 2020.

„Þannig munu þeir félagar sem hafa safnað eða notað Vildarpunkta á einhverjum tímapunkti síðustu tvö árin halda Vildarpunktunum frá 2017. Þessi söfnun eða notkun á Vildarpunktum á árunum 2019 og 2020 gæti falist í flugi með okkur eða viðskiptum við einn af samstarfsaðilum okkar,“ segir í pósti til aðila sem eiga vildarpunkta. 

Vildarpunktarnir verða framlengdir sjálfkrafa við lok ársins og þurfa punktahafar ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir. 

Ferðaárið 2021 verður vonandi skárra en ferðaárið 2020. Icelandair gaf út í síðasta mánuði að flugfélagið stefndi á að fljúga til 32 áfangastaða í milli­landa­flugi sum­arið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert