Gagnrýna „ógeðslega“ hegðun áhrifavalda

Ferðamennirnir tæmdu klósetttankinn á húsbílnum í vegarkanti.
Ferðamennirnir tæmdu klósetttankinn á húsbílnum í vegarkanti. Ljósmynd/Unsplash/Aston Yao

Heimamenn í skosku hálöndunum eru síður en svo ánægðir með hóp áhrifavalda sem ferðuðust þar um á dögunum. Í myndbandi á youtuberás þeirra má sjá þá tæma tankinn á klósettinu í húsbílnum í vegkanti.

Áhrifavaldarnir, sem kalla sig TPD TV, settu inn klukkustundarlangt myndband þar sem þeir fjölluðu um ferð sína um skosku hálöndin og hversu leiðinleg heimsóknin hefði verið. Í myndbandinu sýna þeir svo frá því hvernig þeir tæma klósetttankinn úr húsbíl sínum við veginn. 

Myndbandið hefur vakið mikla athygli í Skotlandi og hefur meðal annars verið tilkynnt til lögreglunnar og til hálandaráðsins og fleiri samtaka. 

„Svona óábyrg og ógeðsleg hegðun bætir ekki orðspor þeirra þúsunda sem heimsækja okkur á hverju ári. Við hvetjum ferðamenn til að njóta okkar fallega svæðis og skilja ekkert eftir þegar þeir fara,“ sagði talsmaður skoska hálandaráðsins. 

Áhrifavaldarnir TPD TV hafa gefið út opinbera afsökunarbeiðni þar sem þeir segjast hafa fræðst um mengun í skosku hálöndunum og hversu mikið vandamál þetta hefði verið. Þeir segjast hafa lært af gjörðum sínum og vilja bæta fyrir það með því að styrkja náttúruverndarsamtök í skosku hálöndunum. 

The National

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert